Einelti: Leiðir og lausnir

Vanda Sigurgeirsdóttir ræddi leiðir og lausnir varðandi einelti.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Hvað er einelti og hversu algengt er það?

Ekki er alltaf einfalt að koma auga á einelti eða greina það frá stríðni eða samskiptavanda. Einelti er skilgreint sem: „neikvætt, langvarandi og endurtekið áreiti sem beinist gegn einum eða fleiri einstaklingum og hefur margþætt neikvæð áhrif á þá sem fyrir því verða. Einelti felur í sér valdaójafnvægi og misbeitingu á valdi“. Tíðni eineltis hefur vaxið á undanförnum árum. Samkvæmt rannsókn frá 2018 segjast rúm 15% íslenskra barna hafa orðið fyrir einelti einu sinni eða oftar á síðustu tveimur mánuðum. Öll getum við orðið fyrir einelti en áhættan eykst hjá þeim sem eru jaðarsett á einhvern hátt, eru með raskanir eða eru annað hvort hlédrægari eða hvatvísari í samskiptum en aðrir. Sem dæmi eru börn sem eru fædd erlendis marktækt líklegri til þess að verða þolendur eineltis og börn með lestrarörðugleika tengjast frekar einelti sem þolendur eða gerendur.

Taka þarf á allri niðurbrjótandi og særandi hegðun

Hvort sem um er að ræða stríðni, meiðandi hegðun, samskiptavanda eða hreint einelti, þá verður að bregðast við þegar barn upplifir vanlíðan. Stríðni og jafnvel góðlátlegt grín getur færst eftir ásnum yfir í einelti ef valdajafnvægið milli einstaklinganna raskast og áreitið verður einhliða. Afleiðingar eineltis eru alvarlegar og hafa neikvæð áhrif bæði á líkamlega og andlega heilsu. Meðal afleiðinga má nefna; þunglyndi, kvíða, áfengis- og vímuefnaneyslu, sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir. Einelti hefur mikil áhrif á sjálfsmynd og sjálfstraust og dregur úr lífsgæðum og vellíðan þeirra sem fyrir því verða.

Við upprætum ekki einelti með einu samtali

Fara skal með gát í viðbrögðum við einelti. Foreldrar ættu til að mynda ekki að vaða í málið þegar þeir eru í tilfinningauppnámi heldur að bíða þar til þeir eru í jafnvægi. Þá getur verið varasamt að boða þolanda og geranda saman á sáttafund. Þeir eru ekki jafningjar í þessum aðstæðum og slíkar tilraunir geta breytt ástandinu til hins verra. Þó er þetta hægt í einhverjum tilfellum, sérstaklega þegar búið er að vinna með málið. Mikilvægt er að hafa í huga að ef það er samþykkt menning hjá hópnum að viðhalda veikri félagslegri stöðu þolandans er erfitt fyrir börn og unglinga að brjóta slíkar félagslegar reglur af sjálfsdáðum. Þau þurfa hjálp til þess að laga ástandið – en þá dugar ekki að skólastjóri komi og tali við hópinn í eitt skipti. Það krefst átaks og langvarandi markvissrar vinnu með öllum hópnum til þess að vinda ofan af eineltismenningu. Í flestum eineltistilfellum þarf hvoru tveggja að styðja og styrkja einstaklinga sem og að vinna með hópinn í heild. Þá verða foreldrar allra barnanna að vera hluti af lausninni.

Hvað er til ráða ef skólinn bregst ekki við?

Hafa má samband við fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum. Hlutverk fagráðsins er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf. Nemendur, foreldrar/forráðamenn og starfsfólk grunn- og framhaldsskóla mega leita til fagráðsins. Einnig aðilar sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi sem hefur stoð í grunnskólalögum.
Skapandi hugsun og heimspekileg umræða hjá ungum börnum

Ólafur Páll Jónsson og Björn Rúnar Egilsson ræddu leiðir til að rækta skapandi hugsun og eiga heimspekilegar umræður við ung börn.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Hugmyndir barna um merkingu táknmyndar

Virkjum pælingarmáttinn

Við getum kennt börnum að þau eigi tilkall til eigin skoðana og búi sjálf yfir þekkingu. Mikilvægt er að gefa sér tíma til að velta vöngum og koma ekki strax með „rétt“ svör við spurningum. Leiðréttingar og svör geta lokað á frekari samræðu og gefið til kynna að aðeins fullorðnir viti svörin. Hefjum heldur samtal með spurnarorðunum; hvað, af hverju og hvernig. Þannig getum við hjálpað börnum að verða leitendur þekkingar, ekki bara þiggjendur.

Er sköpun ferli eða afurð?

Í stað þess að hugsa um ferli og afurð sem tvo aðskilda þætti sköpunar má líta á sköpun sem hringrás þar sem matið á afurðinni getur verið kveikja að nýju sköpunarferli. Matið á afurðinni er hins vegar sjaldnast í höndum barnanna sjálfra heldur á umráðasvæði fullorðinna. Þetta getur alið á mistakaótta og hamlað skapandi hugsun síðar meir.

Börn eru fullfær um að tjá sig um flókna hluti – ef þau fá hvatningu og fá að taka sér pláss.

Sögur, leikir og listaverk geta verið uppspretta heimspekilegra samræðna. Einnig má hefja samræðu við hversdagslegar aðstæður, þegar við spilum borðspil eða segjum sögur sem börnin þekkja. Hér gildir ávallt að flýta sér hægt. Drífum okkur ekki að klára söguna heldur færum okkur úr upplifun yfir í spyrjandi túlkun. Fara má úr því að spyrja Hver …? og Hvað …? yfir í Hvers vegna …? og Hvernig …? Leyfum börnunum að útskýra upplifun sína með eigin orðum. Að lokum má spyrja almennra spurninga sem tengjast efninu, til dæmis hvort það sé sanngjarnt að þeir sem eru stórir fái meira en þeir sem minni eru.

Samræðan er mikilvægari en niðurstaðan

Spurningar barna eru oft bón um frekari samræðu. Við þurfum ekki alltaf að vera með svör á reiðum höndum og megum gjarnan svara „ég veit það ekki, hvað heldur þú?“ Verum ekki of fljót að slá framandi túlkanir út af borðinu og leyfum okkur að hugsa saman án þess að leiðrétta börnin sífellt á lokaðan hátt. Við þurfum að læra að hlusta, tjá okkur, umbera skoðanir annarra, meta hugmyndir og rök og að færa rök fyrir máli okkar. Það þýðir samt ekki að allar hugmyndir eða túlkanir séu jafngóðar (við getum leitt hugann að skaðlegum hugmyndum og falsfréttum). Eftir því sem börn öðlast meiri leikni í samræðunni er tilefni til þess að rökræða hugmyndir og túlkanir. Þá skipta tvö atriði meginmáli: a) Samræðan er ekki keppni, ef betri rök/hugmynd kemur fram þá græða allir eitthvað, ekki bara sá sem setur hana fram. b) Það er ekkert að því að skipta um skoðun, í því felst enginn álitshnekkir (þannig andrúmsloft elur ekki á mistakaótta).

Gagnleg rit

 • Jóhann Björnsson, Eru allir öðruvísi? Fjölmenning og heimspeki.
 • Jóhann Björnsson, Erum við öll jöfn: Kynjamál og heimspeki.
 • Jóhann Björnsson, Ef þú óskar þess að fá hest í afmælisgjöf og færð flóðhest, hefur þá óskin ræst? … og fleiri heimspekilegar pælingar handa hverjum sem er.
 • Gareth B. Matthews, Heimspeki og börn. Íslensk þýðing eftir Skúla Pálsson.

Ólafur Páll Jónsson er prófessor og Björn Rúnar Egilsson er doktorsnemi og stundakennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Hver er ég sem kynvera?

Sigga Dögg kynfræðingur og Sigurður Sigurðsson verkefnastjóri hjá Heimili og skóla/SAFT fjölluðu um það hvernig foreldrar geta rætt við unglinga um sambönd, tilfinningar, mörk og kynlíf.

Upptaka á fundinum.

Virðum mörk barna og unglinga

Viljum við kenna börnum okkar að setja mörk, er mikilvægt að við virðum sjálf þessi mörk. Tökum tillit til skoðana barna varðandi umfjöllun eða myndbirtingar af þeim á netinu. Kannanir sýna að foreldrar deila að meðaltali um 1.500 myndum af barni sínu áður en það verður fimm ára​​ og rúm 80% tveggja ára barna eiga einhvers konar stafrænan feril​​ á netinu. Mynd sem við setjum inn af barni eða unglingi í dag getur valdið vanlíðan jafnvel áratugum síðar.

Samfélagsmiðlar unglinga

Foreldrar og börn dvelja yfirleitt ekki á sömu slóðum á netinu. Fullorðna fólkið er flest á Facebook en börn eru frekar á Instagram, Snapchat og Tik tok. Tilgangur allra miðlanna er þó hinn sami: að eiga spjall við vini, deila myndum af sér og lýsa daglegri iðju sinni. Þörfin er sammannleg ― öll viljum við fá læk og viðbrögð frá ákveðnu fólki og skiptir þar fjöldinn yfirleitt minna máli en frá hverjum athyglin kemur. Unga fólkið talar um að „flexa“ og „flash-a“ sem þýðir að sýna allt frá hnykluðum vöðvum, rössum og brjóstaskorum yfir í bert hold, brjóst og kynfæri. Orðanotkunin getur verið breytileg eftir skólum og hverfum en „flash“ á frekar við að sýna nekt. Fullorðnir „flexa“ líka á sinn hátt þó myndirnar þeirra séu kannski frekar af nýjum sófa eða frá fríinu á Tenerife. Setjum okkur því ekki á háan hest og ræðum notkun samfélagsmiðla á einlægan hátt við börnin okkar.

 • Tik tok: Instagram fyrir myndbönd, flippvefur, mikill áróður, jákvæður og neikvæður
 • Snapchat: spjall við vini
 • Instagram: veggur og story – myndir af sér og lýsa daglegum iðjum sínum

Tölum saman og byrjum snemma

Samtöl um samskipti og mörk geta hafist snemma. Sex ára börn eru strax farin að gera sér grein fyrir hegðun fólks og samböndum sem þau sjá í kring um sig. Hversdagurinn býður þannig upp á ótal tækifæri til þess að spyrja og spjalla. „Fannst þér manneskjan í búðinni áðan vera dónaleg við aðra?“ er dæmi um spurningu sem getur opnað umræðu um mörk og virðingu fyrir öðrum. Seinna meir má tækla vandræðalegri umræðuefni í góðum ísbíltúr. Sjónvarpsþættir geta líka reynst góður ísbrjótur til að ræða kynferðisleg mál og má í því sambandi benda á þættina; Sex Education og Big Mouth, sem flestir unglingar kannast við.

Fylgjum þeim á leið til sjálfsuppgötvunar

Útlitsstaðlar kynjanna birtast börnum snemma í teiknimyndum og barnaefni. Síðar taka samfélagsmiðlastjörnur við að sýna og segja unglingum hvernig líkamar eru ásættanlegir. Ræða má hversu þröngur þessi rammi er og hversu mikil vinna liggur að baki slíku útliti (auk þess sem myndvinnsla á yfirleitt stóran hlut að máli). Spyrja má hvað raunverulega skiptir máli í fari fólks og færa samtalið nær jörðinni. Hvaðan fáum við eiginlega upplýsingar um hvernig við eigum að vera? Spyrja má unglinginn hvaða lýsingarorð hann notar um sjálfan sig og hvort hann haldi að aðrir sjái sig á sama hátt: „Ég hef stundum sagt að þú sért fljótfær/fyndin/klár, finnst þér það sjálfri?“. Tölum um fyrirmyndir okkar í æsku og hvort/hvernig sjálfsmyndin hefur breyst. Tengjum saman við daginn í dag og tilveru unglingsins. Gott er að hefja samtalið á því smáa til þess að vera treyst fyrir hinu stóra.

„Ég veit að það er vandræðalegt að tala um þetta …“

Börn og unglingar fá upplýsingar um ást og kynlíf úr ýmsum áttum en mikilvægt er að þau geti rætt málin við einhvern sem þau geta treyst. Fyrirmyndir um sambönd koma oft úr sjónvarpi þar sem hugmyndin um hinn eina sanna sálufélaga lifir góðu lífi. Er þetta svona í alvöru? Hvernig lætur maður vita að maður sé skotinn í einhverjum? Verum einlæg og segjum frá hvernig þetta var þegar við vorum ung, hvernig við reyndum við og hvernig við vissum að einhver væri skotinn í okkur. Ræða má kynjamun í viðhorfum, hvað það þýðir að vera drusla/karlmannlegur og hvort það sé sanngjarnt. Verum ekki fordæmandi en förum þó ekki í kringum hlutina, segjum beint út að kúgun sé ekki í lagi og að krakkar geti ekki borið ábyrgð á öðrum. Tölum líka við drengina okkar um sambönd, tilfinningar og kynlíf. Ástarsorg er oft stærsta fyrsta áfallið sem unglingsdrengir lenda í og fá bjargráð í boði. Á vefnum https://www.sjukast.is/ má finna upplýsingar og myndbönd hvað felst í heilbrigðum og óheilbrigðum samböndum.

Hvað er kynlíf

Að vera kynvera þýðir að vilja alúðlega snertingu. Kynlíf er hins vegar ekki skylda heldur val og útfærsluatriði hvort og hvernig við viljum stunda það. Algengasta kynlíf í heimi er sjálfsfróun en munum að lögmálin eru önnur þegar kynlíf er stundað með öðrum. Það er ekki kapphlaup um fullnægingu heldur lærdómsferðalag um líkama sinn og annarra. Kynlíf er til þess að hafa gaman af og óþarfi að halda að þú þurfir að vita og kunna allt. Við sjáum sjálf um okkar unað, að setja mörk og kenna öðrum á líkama okkar. Verum mannleg þegar við tölum við unglinga um kynlíf.

Handbókin „Kjaftað um kynlíf“ er gagnleg til að leiðbeina foreldrum og öðrum fullorðnum hvernig megi ræða um kynlíf í sinni víðustu mynd við börn og unglinga, all frá fæðingu.

Fleiri tenglar og gagnleg aðstoð

SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) veitir upplýsingar og ýmsa ráðgjöf um tæknimál.

1717, hjálparsími og netspjall Rauða krossins. Þar geta börn t.d. fengið aðstoð við að túlka netsamskipti.

Hafa má samband við Ábendingalínu Barnaheilla ef við verðum vör við t.d. einelti, áreitni eða annað ólöglegt á netinu, verkefnið er í samvinnu við lögreglu.
Hvaða áhrif hafði samkomubannið á fjölskylduna mína?

Pála Margrét Gunnarsdóttir og Aldís Auðbjörg Garðarsdóttir ræddu um áhrif samkomubannsins á líðan fjölskyldna.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Ástandið getur haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif

Foreldrahlutverkið getur aukið hamingju en uppeldi barna er engu að síður krefjandi og getur valdið álagi.

Heimilisaðstæður eru misjafnar og aukin samvera getur leitt til meiri ánægju hjá sumum en valdið árekstrum og kvíða hjá öðrum. Rannsóknir benda til að hamingja ungmenna hafi aukist í síðustu kreppu vegna fleiri gæðastunda með fjölskyldunni. Mun það sama gerast eftir þetta samkomubann þegar börn komast ekki í skóla og frístundir?

Hvaða lærdóm getum við dregið af þessum tímum?

Vitað er að jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs stuðlar að aukinni hamingju. Að vinna heima getur bæði verið álagsþáttur og verndandi þáttur fyrir heilsu fólks. Vinnuveitendur bera hér mikla ábyrgð og eru hvattir til þess að auka sveigjanleika og ákörðunarvald starfsfólks yfir tíma sínum. Stytting vinnuvikunnar gæti aukið hamingju fjölskyldna.

Það er margt sem má þakka fyrir og nefndu áheyrendur meðal annars; aukna samveru, ísbíltúra, heilsuna og meira rými til þess að njóta lífsins og náttúrunnar.

Mikilvægt er að ræða við börn um upplifun sína og tilfinningar og má benda á gagnlegar bækur fyrir börn á aldrinum 4-10 ára í þessu sambandi.

Við þurfum að hugsa vel um okkur á þessum krefjandi tímum og leyfa bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Hvað er eitruð jákvæðni?

 

View this post on Instagram

Óbilandi jákvæðni hjálpar engum! Hér má sjá dæmi um hjálplega og óhjálplega hluti til að segja þegar fólkið okkar gengur í gegnum erfiða tíma. 🧡 – Þetta efni er unnið að fyrirmynd Tanglaw Mental Health.

A post shared by Hugarafl (@hugarafl) on

Pála Margrét er aðjunkt við Menntavísindasvið, með meistaragráðu í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Aldís Auðbjörg er með meistaragráðu í áhættuhegðun og forvörnum og stundar nú meistaranám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.
Heimastærðfræði – Hvað er gagnlegt að gera?

Guðbjörg Pálsdóttir og Margrét S. Björnsdóttir fjölluðu um ýmsar leiðir til þess að efla talnalæsi og áhuga barna á stærðfræði með leikinn að leiðarljósi.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Leikið með tölur og spil.

Fáum fjölskylduna með í leikinn

Það er mikilvægt að börn finni að nánustu aðstandendur viti hvað þau eru að fást við og sýni áhuga á námi þeirra. Foreldrar, systkini, afi og amma geta hvert með sínum hætti hjálpað til við að efla stærðfræðiáhugann. Alls staðar í umhverfinu má finna tölur og mynstur sem gaman er að velta fyrir sér og gera að leik.

Stuðningur við heimanám

Foreldrar geta aðstoðað börn við að setja sér markmið og upplifa sigra í náminu. Þá gagnast vel að setja sig inn í viðfangsefnin til þess að geta bæði sýnt og kveikt áhuga. Greina má verkefnin og inntakið með börnunum og benda á gagnsemi í daglegu lífi. Markmiðið er ekki bara að ljúka verkefnum heldur að læra af þeim og geta sagt frá því sem við höfum lært. Leikir geta einnig verið mjög hjálplegir.

Leikið við hvern sinn fingur

Margir telja að notkun fingra við útreikning bendi til slakrar færni í stærðfræði. Þvert á móti hafa rannsóknir leitt í ljós að fingranotkun gagnist afar vel og virki svæði í heilanum sem við notum við útreikninga alveg fram á fullorðinsár.

Það má reyna ýmsa reiknilist með bæði yngri og eldri börnum með fingrunum einum saman:

 • Á hvað marga vegu geturðu talið frá einum upp í fimm með annarri hendi, koma fram áhugaverð mynstur?
 • Hvernig má vera viss um að hafa talið allar mögulegar leiðir og hvernig sannfærir þú aðra um að það hafi náðst?
 • Athugið að sumt þarf ekki að leysa um leið og ekki skal reka á eftir svörum heldur taka sinn tíma – jafnvel fram á næsta dag.

Jo Boaler prófessor við Stanford háskólann sérhæfir sig í stærðfræðimenntun og menntun fyrir kennara. Hún sýnir hér ýmsar reiknikúnstir á fingrum sér: https://www.youcubed.org/resources/count-on-me-k-12-video/

Leikur er góð námsleið fyrir allan aldur – notum spilastokkinn!

Guðbjörg sýndi möguleika spilastokksins til að þjálfa reiknifærni með leikjum sem má útfæra á ótal vegu.

Hún benti einnig á skemmtilega síðu með myndböndum Mick Minas og ungrar dóttur hans Nash, þar sem þau fást við ýmsar skemmtilegar stærðfræðiþrautir og leiki: https://www.lovemaths.me/games

Einnig má benda á greinar Guðbjargar og Margrétar hér á Bakhjarlasíðunni:

Guðbjörg Pálsdóttir er dósent í stærðfræðimenntun og Margrét Sigríður Björnsdóttir aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Meðvituð samskipti

Hvaðan koma hugmyndir og viðhorf okkar um uppeldi?

Helena Rut Sigurðardóttir og Rakel Guðbjörnsdóttir fræddu foreldra um meðvituð samskipti.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Ómeðvituð viðbrögð móta samskiptamynstur foreldra og barna

Eigið uppeldi mótar gjarnan uppeldisaðferðir og hugmyndir foreldra um aga. Aðrir mótandi þættir eru; nærumhverfið, stuðningsnet, búseta, efnahagsstaða og samfélagið sem við búum í.  Mikilvægt er að uppalendur skoði hlutverk sín sem fyrirmyndir og ígrundi hvað liggur að baki viðhorfum og viðbrögðum. Togstreita getur ríkt í tvíhliða sambandi barns og foreldris þar sem annar bregst stöðugt við viðbrögðum hins og öfugt. Þessi viðbrögð geta stýrst af fyrri reynslu og væntingum auk ómeðvitaðra taugaviðbragða sem bjóða okkur að berjast, hörfa eða frjósa.  Foreldrar ættu að vera meðvitaðir um eigin viðbrögð því þau geta viðhaldið erfiðri hegðun og samskiptamynstri.

Foreldrar geta slökkt á sjálfstýringunni og tamið sér betri færni með þjálfun og þekkingu

Rakel og Helena Rut ræddu hvernig ígrundun getur leitt til meðvitaðra uppeldisaðferða. Þá getur hjálpað að halda dagbók og eiga samtal við foreldrafræðara eða jafnvel aðra foreldra með svipaða reynslu. Þær mæltu með því að skrifa niður og skoða hvað veldur síendurteknum mynstrum – er um að ræða átök, samskiptaerfiðleika eða neikvæðar hugsanir í eigin garð eða barnsins? Hvaða aðstæður kalla fram neikvæð viðbrögð og hvaða hugsanir stjórna ferðinni? Hvernig leið þér í aðstæðunum og hvernig heldurðu að barninu hafi liðið?

Sýnum okkur sjálfum samkennd

Foreldrahlutverkinu fylgir mikil ábyrgð og algengt er að álasa sér þegar illa gengur. Fremur en að lamast af sektarkennd er mælt með því að sýna sér samkennd við óþægilega uppgötvun og muna að hrósa sér fyrir hugrekkið sem þarf til þess að fara út fyrir þægindarammann og þroskast sem uppalandi.

Rakel er með B.A. í sálfræði og M.A í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Hún er einnig heilsu- og meðgöngunuddari og heilsumarkþjálfi frá IIN.
Helena er leikskólakennari og sérkennslustjóri í leikskóla með M.A í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.

Um tengjumst.is:

Tengjumst – boðið verður upp á vettvang fyrir foreldra/uppalendur til að koma saman, fá fræðslu og gera hagnýtar æfingar til að þroska viðhorf sín og auka víðsýni við uppeldi barna sinna. Tengjumst vinnur í samstarfi við meðferðastofuna Varðan þar sem Vagnbjörg Magnúsdóttir fíknifræðingur og nemi í áfallafræðum starfar ásamt Berglindi Ólafsdóttur fjölskyldufræðingi.

Rakel og Helena hafa tekið námskeiðið RDPED og munu standa fyrir námskeiðum í ígrunduðum samræðum byggðum að stórum hluta á hygmyndafræði þess námskeiðs (RDPED).
Language learning during COVID-19 times

This post is available in English, Polish and Icelandic.

Informacja jest dostępna w języku angielskim, polskim i islandzkim.

Þessi færsla er aðgengileg á ensku, pólsku og íslensku.

In English

How can parents of foreign origin support the study, interests and reading of their children at the time of Covid-19?

Renata Emilsson Pesková, Kriselle Suson Jónsdóttir and Magdalena Elísabet Andrésdóttir offered various good advice and useful information about where to look for support in these demanding times.

Recording from the meeting.

Loader Loading...
EAD Logo Taking too long?

Reload Reload document
| Open Open in new tab

Download/Pobierz tutaj/Hlaða niður [953.05 KB]

They also answered these frequent questions from parents:

 • Is it important to send the child to school/preschool at COVID-19 times?
 • What changes are there in preschools, compulsory schools and leisure time at COVID-19 times? How about the service for students with special needs?
 • Who takes the responsibility for the child´s study?
 • How about homework? How is it possible for parents to follow and support their children´s homework?
 • Barriers and solutions in collaboration of parents and schools.
 • How is it possible to increase the Icelandic language environment now that children are mostly at home?
 • How can we support the interests of the children?
 • What is offered to parents and children?

Renata Emilsson Pesková is the project manager of master´s studies at the School of Education and sessional teacher at the School of Education and the School of Humanities. Kriselle Suson Jónsdóttir and Magdalena Elísabet Andrésdóttir are language and cultural mediators at the Centre of Language and Literacy, that is run by the Department of Education and Youth of the City of Reykjavík. They provide counselling and support for parents and students of foreign origin, as well as teachers and staff of the Department of Education and Youth.

Links to articles for parents:

Links to sites for parents:

Renata Emilsson Peskova, renata@hi.is, Project Manager of Master’s Studies at the School of Education
Kriselle Suson Jónsdóttir, kriselle@reykjavik.is, and Magdalena Elísabet Andrésdóttir, Magdalena.Elisabet.Andresdottir@reykjavik.is, Language and Cultural Mediators of the Language and Literacy Centre

Po polsku

W jaki sposób rodzice obcego pochodzenia mogą wspierać naukę, zainteresowania i czytanie u swoich dzieci w czasach Covid-19?

Renata Emilsson Pesková, Kriselle Suson Jónsdóttir i Magdalena Elísabet Andrésdóttir zaoferowały różne dobre porady i przydatne informacje na temat tego, gdzie szukać wsparcia w tych trudnych czasach.

Nagranie ze spotkania.

Kriselle i Magdalena

Odpowiedzały również na częste pytania zadawane przez rodziców:

 • Czy ważne jest, aby wysłać dziecko do szkoły / przedszkola w czasie COVID-19 ?
 • Jakie zmiany następują w przedszkolach, szkołach podstawowych i w świetlicach w czasie COVID-19? Jakie są usługi dla uczniów ze specjalnymi potrzebami?
 • Kto bierze odpowiedzialność za naukę dziecka?
 • W jaki sposȯb możesz pomȯc dziecku w domowej szkole? Jak rodzice mogą śledzić i wspierać pracę domową swoich dzieci?
 • Bariery i rozwiązania w współpracy rodziców z szkołą.
 • Jak można zwiększyć środowisko/otoczenie języka islandzkiego, skoro dzieci są w większości w domu?
 • Jak możemy wspierać zainteresowannia dzieci?
 • Co jest oferowane rodzicom i dzieciom podczas lata 2020?

Renata Emilsson Pesková jest kierownikiem projektu studiów magisterskich i nauczycielem sesyjnym w Wydziale Humanistyki Uniwersytetu Islandzkiego. Kriselle Suson Jónsdóttir i Magdalena Elísabet Andrésdóttir są mediatorami językowymi i kulturalnymi w Centrum nauki czytania i pisania, prowadzonym przez Departament Edukacji i Młodzieży Miasta Reykjavík. Zapewniają doradztwo i wsparcie rodzicom oraz uczniom obcego pochodzenia, a także nauczycielom i pracownikom Departamentu Edukacji i Młodzieży.

Linki do artykułów dla rodziców:

Centrum Języka i Literatury:

Renata Emilsson Peskova, renata@hi.is, Kierownik projektu studiów magisterskich i nauczycielem sesyjnym w Wydziale Humanistyki Uniwersytetu Islandzkiego
Kriselle Suson Jónsdóttir, kriselle@reykjavik.is, and Magdalena Elísabet Andrésdóttir, Magdalena.Elisabet.Andresdottir@reykjavik.is, Mediatorzy językowi i kultury z Centrum nauki czytania i pisania, prowadzonym przez Departament Edukacji i Młodzieży Miasta Reykjavík

Á íslensku

Hvernig geta foreldrar af erlendum uppruna stutt við nám, áhugamál og lestur barna sinna á tímum Covid-19?

Renata Emilsson Pesková, Kriselle Suson Jónsdóttir og Magdalena Elísabet Andrésdóttir veittu ýmis hollráð og gagnlegar upplýsingar um hvert má leita stuðnings á þessum krefjandi tímum.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Slóðirnar sem vísað er í í glærunum má finna á síðunni Hagnýtir tenglar.

Þær gáfu einnig svör við helstu spurningum foreldra:

 • Er mikilvægt að senda barnið í skóla/leikskóla á COVID-19 tímum?
 • Hvaða breytingar eru í leik- og grunnskólastarfi og frístund á COVID-19 tímum? Hvað með þjónustu fyrir nemendur með sérþarfir?
 • Hver tekur ábyrgð á námi barnsins?
 • Hvað með heimanám? Hvernig er hægt fyrir foreldra að fylgjast með og styðja við heimanám barna sinna?
 • Hindranir og lausnir í samstarfi foreldra og skóla.
 • Hvernig er hægt að auka íslenskt málumhverfi fyrir börn núna þegar þau eru mest heima?
 • Hvernig getum við stutt við áhugamál barna?
 • Hvað er í boði fyrir foreldra og börnin?

Renata Emilsson Pesková, verkefnastjóri meistaranáms við Menntavísindasvið og stundakennari við Mennta- og Hugvísindasvið. Kriselle Suson Jónsdóttir og Magdalena Elísabet Andrésdóttir eru brúarsmiðir í Miðju máls og læsis, sem heyrir undir Skóla- og frístundsvið Reykjavíkurborgar. Þær veita ráðgjöf og stuðning við foreldra og nemenda af erlendum uppruna sem og kennara og starfsmenn SFS.

Tenglar á greinar fyrir foreldra á ensku:

Tenglar á síður fyrir foreldra:

Renata Emilsson Peskova, renata@hi.isVerkefnastjóri meistaranáms við Menntavísindasvið
Kriselle Suson Jónsdóttir, kriselle@reykjavik.is, og Magdalena Elísabet Andrésdóttir, Magdalena.Elisabet.Andresdottir@reykjavik.isBrúarsmiðir Miðju máls og læsis
Tökum til í svefnvenjunum!

Erlingur Jóhannsson prófessor og Rúna Sif Stefánsdóttir doktorsnemi fjölluðu um fyrirbærið svefn, hvað gerist þegar við sofum og um mikilvægi svefns fyrir líðan okkar og heilsu.

Upptöku á fundinum má finna hér.

 

Börnin gera eins og við gerum, ekki það sem við segjum

 

Í svefninum á sér stað endurheimt fyrir bæði sál og líkama

Í rannsóknum Erlings, Rúnu Sifjar og fleiri rannsakenda frá Menntavísindasviði kemur í ljós að íslensk ungmenni sofa of lítið. Einnig sýna rannsóknirnar að þeir sem hreyfa sig meira eru minna í tölvum og símum – og báðir þættir hafa jákvæð áhrif á gæði svefns.

Rúna Sif er um þessar mundir að skoða tengsl svefns við minni og athygli, m.a. rýnir hún niðurstöður úr samræmdum prófum á unglingastigi.

Athyglisvert er að hreyfing ungmenna minnkar töluvert frá 15 ára aldri til 17 ára. Breytingin átti sér mestmegnis stað á virkum dögum eða skóladögum. Þetta dregur mikilvægi þess að við skoðum skólaumhverfið vel með það í huga að skapa sem oftast aðstæður og svigrúm til hreyfingar.

Annað sem Erlingur og Rúna Sif komu inn á var mikilvægi reglu, breytileiki í svefni og svefnmynstri ungmenna er mjög mikill – en lykilatriði er að halda reglu á svefninum.

Spurningar frá þátttakendum lutu að klukku og tíma

Hvaða skoðun hafa Erlingur og Rúna Sif á breytingu á klukkunni, eða seinkun á upphafi skóladags hjá unglingum? Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á veruleg jákvæð áhrif á vellíðan og námsárangur, í skólum þar sem uppphafi skóladags var seinkað. Þau eru bæði fylgjandi því að seinka klukkunni og telja það geta haft jákvæð áhrif á svefn og heilsutengda þætti.

Þátttakendur spurðu einnig um gildi morgunæfinga sem íþróttafélög skipuleggja gjarnan fyrir unglinga og ungmenni sem eru á bólakafi í íþróttum. Rúna Sif og Erlingur mæla þeim ekki endilega bót, enda þarf líkaminn endurheimt og hvíld, það tvennt eru algjör lykilatriði í árangri íþróttafólks. Eins gjalda þau varhug við íþróttaæfingum seint á kvöldin, það gefur líkamanum ekki nauðsynleg skilaboð fyrir svefninn.

Að lokum: Svefn er grunnstoð heilsu!

Vefurinn Heilsuhegðun ungra Íslendinga inniheldur allar upplýsingar um rannsóknir Erlings, Rúnu Sifjar og rannsakenda á Menntavísindasviði.
Að hvetja framhaldsskólanemann af stað eftir páskafrí: Áskoranir og leiðir fyrir foreldra

Guðrún Ragnarsdóttir, lektor og Súsanna Margrét Gestsdóttir aðjunkt ræddu um áskoranir og leiðir til að hvetja framhaldsskólanemann af stað í náminu eftir páskafrí. Rúmlega 100 þátttakendur hlýddu á erindi þeirra og sendu inn spurningar. Guðrún og Súsanna hafa safnað gögnum undanfarnar vikur sem endurspegla hvað kennarar, foreldrar og nemendur í framhaldsskólum eru að ganga í gegnum á tímum kórónaveirunnar.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Úr einum örfyrirlestri náms- og starfsráðgjafa í Borgarholtsskóla.

Raddir foreldra, kennara og nemenda í framhaldsskólum

Það blasir við að síðustu vikur og næstu vikur verða mikil áskorun fyrir heimilin og skólana. Í gögnum Guðrúnar og Súsönnu kemur fram eftirtektarverður samhljómur milli radda kennara, foreldra sem og nemenda.

Viðmælendur þeirra nefna að skilin milli heimilis og náms/vinnu eru óljós og að aðstæður nemenda til að fá aðstoð frá foreldrum sínum eru æði misjafnar. Nemendur sækja jafningjastuðning til félaga sinna. Foreldrar hafa komið með ábendingar til skólameistara um hvað megi betur fara.

Námsumsjónarkerfin eru mörg hver framandi fyrir foreldra en Guðrún og Súsanna Margrét hvöttu foreldra til að kynna sér það sem þar er, einkum námsáætlanir, verklýsingar og námsmat. Í kringum þessar upplýsingar geta foreldrar svo rætt við unglingana um námið og námsframvinduna. Skólar hafa nálgast fjarkennsluna með ólíkum hætti og innan sama skóla getur jafnvel verið um mörg mismunandi kerfi að ræða, milli ólíkra kennara og námsgreina. Fram kom ábending frá foreldrum að líklega hefði verið betra að athuga það strax í upphafi að taka upp eitt kerfi til að einfalda nemendum lífið því oft þurftu nemendur að hitta kennarana sína á mörgum ólíkum miðlum og taka við upplýsingum víða. Guðrún og Súsanna bentu á hve gagnlegt það gæti verið að fá ungmennin sjálf í leiðsögnina, þau þekktu yfirleitt betur en foreldrarnir til þeirra umsjónarkerfa sem notuð eru í skólunum.

Nemendur sem og foreldrar eru áhyggjufullir yfir námsmati og tilhögun náms og því hve ólík nálgun getur verið bæði milli skóla og milli kennara í sama skóla.

Það eru litlu sigrarnir sem skipta máli í svona aðstæðum

Svo mælti foreldri nemenda með ADHD, en þeir nemendur hafa átt á brattann að sækja þegar rútína er lítil og óvissa mikil. Annar nemandi lýsir eirðarleysinu og ládeyðunni með orðunum: Hendur mínar eru eins þungar og blý! Nemendum varð tíðrætt um félagslegu tengslin en ungmenni á framhaldsskólaaldri eru mjög félagslega virk upp til hópa. Þeim þykir erfitt að komast ekki á íþróttaæfingarnar sínar eða aðrar tómstundir, sem eru oft stór hluti af þeirra sjálfsmynd.

Helst myndi ég vilja fá að knúsa þau!

Raddir kennara eru í miklum samhljómi við raddir foreldra og nemenda. Kennarar lýsa áhyggjum sínum af gengi nemenda sinna í námi, sem og velferð almennt. Umhyggja og söknuður eftir samskiptum við nemendur í raunaðstæðum skein í gegn í svörum þeirra. Ofan á áhyggjurnar kemur álag sem fylgir því að koma til móts við nemendur í fjarkennslu, kennarar ganga oft langt í þeim efnum, sveigja og beygja af leið og reyna að láta ringulreiðina ekki ná tökum á sér né nemendum. Kennarar sakna líka samstarfsfólksins og vinnustaðarins.

Þátttakendur á fundinum leituðu eftir hollráðum um hvernig þeir gætu borið sig að gagnvart skólunum ef börn þeirra vildu ekki þiggja aðstoð, einn benti á mikilvægi þess að stilla væntingum í hóf, ekki væri hægt að búast við því að ungmenni myndu skila 100% öllu sínu við þessar óvenjulegu aðstæður. Spurt var um áhugahvöt og leiðir til að efla hana almennt, ábendingar komu fram um að betra hefði verið að vera með eitt námsumsjónarkerfi í stað margra og fólk spurði út í leiðir til að mæta ungmennum sem væru með ADD.

Að lokum eru hér hlekkir á ýmislegt gagnlegt og fróðlegt frá námsráðgjöfum framhaldsskólanna, sem eru ávallt til staðar fyrir nemendur skólanna og foreldrar geta leitað í þeirra smiðju einnig.
Förum út að læra og leika

Þau Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjunkt og Ingileif Ástvaldsdóttir, aðjunkt fóru bókstaflega um víðan völl á fjórða fræðaslufundinum – Förum út að læra og leika.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Þátttakendur fengu að „fara út að læra og leika“.

Jakob fór yfir ýmislegt tengt útiveru og óformlegu námi og mikilvægi þess að foreldrar væru fyrirmyndir barna sinna þegar kemur að því að fara út. Dóttir hans Þórdís slóst í lið með honum og vakti athygli okkar á sjónarhorni unglinga og ungmenna. Ekki mætti gleyma því að þó þeir virkuðu oft neikvæðir í garð þess að gera eitthvað utandyra, eða innandyra, með fjölskyldum sínum, þá væri það oftast svo þegar á hólminn væri komið að þeir skemmtu sér vel. Þórdís impraði á mikilvægi þess að foreldrar hlusti á unglingana og leyfðu þeim að ráða.

Hún stakk upp á því að öðru hverju fengju börn og unglingar algjörlega frjálsar hendur með dagskrá fjölksyldunnar – þetta er þitt kvöld, þú mátt ráða! Hún mælti líka með því að foreldrar spöruðu að biðja sjálfir um að unglingar pössuðu yngri systkini sín – því að 90% meiri líkur væru á því að unglingar myndu vilja gera eitthvað skemmtilegt með yngri systkinum ef bónin kæmi frá þeim yngri sjálfum! Önnur hugmynd, nú þegar margir eru að nýta sér heimsendan mat, að dúka borð, fara í spariföt og þykjast vera úti að borða – heima við.

Ingileif tók við og fór yfir mikilvægi þess að líta á þetta tímabil sem tímabil lífsleikni, fjölskyldur, börn, foreldrar, ömmur og afar – allir væru að læra eitthvað nýtt. Að skapa nýja rútínu þegar skóla- og frístundastarf er með skertum hætti er heilmikill lærdómur. Að halda fjölskyldufundi með öllum við borðið, þar sem raddir allra heyrast, er mikill lærdómur í lífsleikni og lýðræði. Það er mikilvægt að ætla sér ekki um of, nýja rútínan þarf ekki og á ekki að vera flókin. Gott væri að spyrja börn, og leyfa þeim að ígrunda og pæla í:

 • Hvað verð ég að gera?
 • Hvað langar mig að gera?
 • Hvað get ég gert?

Í þessum pælingum felist heilmikill lærdómur, þetta þarf líka að endurhugsa reglulega, eftir því hvernig aðstæður í samfélaginu breytast, það má efast, hugsa upp á nýtt.

Rætt var um þær hugmyndir sem hafa verið ræddar að lengja bæri skólaárið, í ljósi þess að skólahald hefur verið skert. Þátttakendur sammála um að það fer heilmikið nám fram um þessar mundir, þó formlegt skólahald sé skert. Ekki mætti vanmeta gildi þess að læra með nýju sniði, tileinka sér tækni, læra ný samskiptaviðmið, ræða saman og verja meiri tíma með fjölskyldunni, spila úr aðstæðum, finna til söknuðar, læra að ekki er allt gefið. Nú er stórt tækifæri til staðar til að víkka út hugmyndir okkar um nám!

Með kveðju frá þeim Kobba og Ingileifu

Snúbrauð

(4 pítsabotnar eða snúbrauð f. 10)
 • 1 bréf af þurrgeri
 • 6 dl af volgu vatni
 • 1 dl olía
 • 1 tsk salt
 • 1 msk sykur
 • 2 tsk steyttar/malaðar kardimommur
 • 1 kg hveiti
Vanda sýnir snúbrauðsgerð yfir eldi úti í garði