Framhaldsskólinn á tímum COVID-19

Guðrún Ragnarsdóttir er lektor í stjórnun menntastofnana og hluti af rannsóknarteymi fræðifólks á Menntavísindasviði Háskóla Íslands sem rannsakar áhrif fyrstu bylgju COVID-19 á framhaldsskólastarf.

Í fyrstu greiningu okkar á spurningalistakönnun sem lögð var fyrir allt starfsfólk í framhaldsskólum koma margir áhugaverðir þættir í ljós um starfið innan framhaldsskólans á tímum samkomubanns. Við erum rétt að byrja að skoða gögnin og er með áhersluna á framhaldsskólakennara í þessari atrennu. Um níu af hverjum tíu framhaldsskólakennurum stunduðu vinnu sína alfarið eða að mestum hluta annars staðar en í skólabyggingu og 73% kennara taldi sig hafa næði til að sinna starfi sínu. Tæplega sjö afhverjum tíu kennurum fann fyrir mun meiri eða nokkuð meiri streitu í starfi á meðan skólar voru lokaðir og um þriðjungi framhaldsskólakennara fannst starfsskyldur sínar óskýrari eða nokkuð óskýrari í samkomubanni. Þessar fyrstu niðurstöður sýna skýrt hversu mikil áskorun mætti framhaldsskólakennurum í vor. Kennarar upplifðu meiri streitu, vinnuálagið jókst og starf kennara var óskýrara og flóknara en áður.

Upplifun framhaldsskólakennara á stöðu nemenda

Tæplega átta af hverjum tíu framhaldsskólakennurum töldu nemendur hafa verið undir mun meira, eða nokkuð meira andlegu álagi á meðan á samkomubanni stóð. Rúmlega þriðjungur sagði námsálag á nemendur í sinni kennslu hafa aukist mikið eða nokkuð mikið. Um helmingur kennara taldi mætingu nemenda vera verri en fyrir samkomubann og tæplega helmingur kennara sagði virkni þeirra hafa minnkað. Ég og Súsanna Margrét Gestsdóttir samstarfskona mín gerðum forathugun í kringum páska og heyrðum í framhaldsskólakennurum, nemendum og foreldrum. Það samtal leiddi í ljós aukið álag og streitu á meðal nemenda og flókið samspil heimilislífs og vinnu. Fróðlegt verður að skoða þessa þætti enn frekar við greiningu á gögnunum sem við höfum undir höndum.

Fyrirkomulag kennslu í framhaldsskólum

Áfangar í framhaldsskólum féllu að öllu, eða einhverju leyti niður hjá 9% kennara í framhaldsskólum á meðan samkomubanni stóð. Í þessu samhengi verður áhugavert að skoða ólíka kennarahópa. Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um starfsnámið og rannsakendur vinna á næstunni frekari niðurstöður um upplifun starfsnámskennara á tímum samkomubanns. Alls söguðst 73% framhaldsskólakennara hafa að öllu eða nokkru leyti hafa kennt samkvæmt stundatöflu, 16% að litlu leyti og 11% ekki. Tæplega helmingur framhaldsskólakennara sagðist hafa fengið lítinn kennslufræðilegan stuðning. Í þessu samhengi verður spennandi að skoða hvernig stuðningi var almennt háttað innan skólanna en að mínu mati gefa þessar niðurstöður mikilvægar vísbendingar um það hvernig almennt er staðið að faglegum stuðningi við kennara í skólum.

Það dró úr samvinnu nemenda – og fjölbreytni námsmats

Skipulag kennslu er viðfangsefni sem ég brenn fyrir og hef haft áhyggjur af, einkum í ljósi félagslegrar einangrunar á tímum samkomubanns og andlegs álags á nemendur. Um helmingur framhaldsskólakennara byggði kennsluna meira en áður á einstaklingsframlagi, 38% kennara gekk verr en áður að beita fjölbreyttum kennsluháttum og 64% sögðu að þeim gengi verr en áður að leggja áherslu á samvinnu nemenda. Ég tel að hér þurfum við að þróa af krafti aðferðir í fjarnámi sem stuðla að félagslegri virkni og samstarfi nemenda, en það gefur augaleið að nemendur eru oft ansi einmana fyrir framan tölvuskjáinn alla daga.

Sömu sögu er að segja um námsmat. Tæplega þriðjungi framhaldsskóakennara gekk verr en áður að ljúka námsmati jafnóðum og 42% sögðust hafa færri tækifæri til að nota fjölbreytt námsmat í samkomubanni. Það verður spennandi að skoða námsmatið enn frekar enda margar breytur í gagnasettinu sem mæla þann þátt.

Tækifærin framundan: Lærdómssamfélög kennara og samvinna nemenda

Hið jákvæða er að allflestir framhaldsskólakennarar hafa tileinkað sér nýjungar í kennslu, þrátt fyrir að margar áskoranir hafi mætt þeim á tímum heimsfaraldurs. Það verður gaman að rýna enn betur í gögnin. Ég tel mikilvægt að þróa og þjálfa betur samvinnunámsaðferðir í fjarkennslu og næra með mun markvissari hætti félagsleg samskipti nemenda. Þá tel ég að afar mikilvægt sé að við byggjum upp virk lærdómssamfélög innan framhaldsskólanna með markvissum stuðningi fræðasamfélagsins og menntayfirvalda. Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum tækifærið og skrifum samtímasöguna, lærum meira um kreppur og breytingastarf í skólum, ásamt því að miðla hugmyndum og aðferðum til vettvangs. Það eru stóru tækifærin framundan.

 




Sterkari tengsl milli heimila og grunnskóla í fyrstu bylgju COVID-19

Kristín Jónsdóttir, kennslukona, dósent og forseti Deildar kennslu og menntunarfræði.

Ein af rannsóknum okkar á Menntavísindasviði á áhrifum kófsins á menntakerfið beindist að samstarfi milli heimila og grunnskóla. Hér segi ég frá fyrstu niðurstöðum úr spurningakönnun sem send var til stjórnenda grunnskóla. Niðurstöðurnar eru athyglisverðar fyrir margra hluta sakir og verður ánægjulegt að greina gögnin enn frekar til að koma auga á mikilvægar vísbendingar sem styrkja geta til framtíðar skólastarf, tengsl heimila og skóla og vellíðan barna.

Niðurstöðurnar varpa ljósi á að í fyrstu bylgju COVID ríkti gagnkvæmur stuðningur milli skólastjórnenda og foreldra, 55% stjórnenda segjast hafa fengið stuðning í störfum sínum frá foreldrum og þrír af hverjum fjórum stjórnendum sögðu að samstarfið við foreldra hefði verið auðvelt. Um 43% stjórnenda sögðu að foreldrar hefðu leitað mikið til þeirra eftir ráðgjöf og stuðningi og skólastjórnendur virðast hafa lagt mikla rækt við samstarf við foreldra. Þannig sögðu 38% skólastjórnenda að mun meiri tími hefði farið í samstarfið, sem eins og áður sagði gekk að miklu leyti mjög vel.

Skólastjórnendur glímdu við COVID af ósérhlífni

Ein af spurningunum sem beint var til skólastjórnenda snéri að viðbrögðum þeirra við fullyrðingunni: „Ég hef haft gaman af að glíma við þær áskoranir sem COVID-19 faraldurinn hefur fært mér“. Þrír af hverjum fjórum skólastjórnendum sögðust hafa haft gaman af þeim áskorunum sem kófið færði þeim. Að mínu mati tel ég þetta vera til marks um fagmennsku og metnað stjórnenda í grunnskólum, sem hlífa sér hvergi. Þá telur mikill meirihluti skólastjórnenda líklegt að kófið muni hafa áhrif á kennsluhætti til frambúðar. Það er sannarlega verðugt rannsóknarefni að rýna betur í gögn okkar fræðifólks á Menntavísindasviði og skoða betur í hverju þær breytingar fólust.

Tengjumst!

Eitt atriði tel ég mikilvægt að við höfum öll í huga og það eru börn í viðkvæmri stöðu. Í rannsóknum mínum sem og kollega minna á áhrifum kófsins á menntakerfið blasir við að börn í viðkvæmum hópum hafa ekki farið vel út úr kófinu. Sérstaklega vil ég draga fram áhrifin á börn af erlendum uppruna og mikilvægi þess að við styrkjum tengsl heimila þar sem móðurmál barna er annað en íslenska. Nýverið hlaut ég styrk úr samfélagsverkefnasjóði Háskóla Íslands til að þróa og hanna fræðsluefni fyrir foreldra grunnskólabarna af erlendum uppruna og það verður unnið með kennaranemum í meistaranámi. Fræðsluefnið verður í fjórum hlutum og snýst um hefðir og venjur í samskiptum heimila og skóla; um mikilvægi þess að foreldrar og kennarar starfi saman fyrir aðlögun barnanna í íslensku samfélagi, vellíðan þeirra og námsárangur; um réttindi og skyldur foreldra vegna skólagöngu barna sinna; og loks um það hvernig foreldrar geti stutt við íslenskunám og lestrarþjálfun barna og unglinga.

Þetta verkefni og fleiri til, ásamt mikilvægum niðurstöðum rannsókna á stöðu viðkvæmra hópa á tímum heimsfaraldurs, eru framlag okkar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands til að stuðla að farsælli  skólagöngu, velferð og þátttöku barna og fjölskyldna af erlendum uppruna. Það skiptir miklu, fyrir okkur öll.




Leikur barna blómstraði á tímum takmarkana á skólahaldi

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, lektor og leikskólakennari og Svava Björg Mörk, aðjunkt, doktorsnemi og leikskólakennari unnu að rannsókn á áhrifum takmarkana á skólahaldi á tímum COVID-19. Þær starfa báðar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og kynntu fyrstu niðurstöður sínar á málþingi mennta- og menningarmálaráðuneytis um áhrif kófsins á menntakerfið, sem fram fór 10. september.

Leikur barna blómstraði á tímum takmarkana á skólahaldi 

Í rannsókn okkar skoðuðum við áhrif takmarkanna á leikskólastarf með sérstakri athygli á leik barna og hlutverk starfsfólks. Við söfnuðum gagna með spurningakönnun sem var send á netföng 248 leikskóla. Svör bárust frá 172 leikskólum og leikskólastjórar voru í meirihluta þeirra sem svöruðu. Auk þess söfnuðum við gögnum með 16 einstaklingsviðtölum á meðan samkomubanninu stóð, þátttakendur voru leikskólastjórar, deildarstjórar og leikskólakennaranemar við Menntavísindasvið.

Minni barnahópar höfðu mikil áhrif á leik leikskólabarna

Algengt var að leikskólar á landinu skipulögðu starf sitt á þann veg að börnin skiptust á að mæta í leikskólann, með þeim afleiðingum að sá hópur barna sem dvaldi hverju sinni í leikskólunum var mun minni. Í 138 leikskólum voru færri börn í hóp en áður og í rannsókninni spurðum við sérstaklega um áhrif þessa. Í 61% tilvika mátu stjórnendur að það hefði haft mikil, eða frekar mikil áhrif á leik barnanna. Þriðjungur stjórnenda töldu að minni barnahópar hefði haft mjög mikil áhrif á leikinn. Þá sýndu niðurstöður einnig að 71% svarenda töldu að minni barnahópar hafi haft mjög mikil eða frekar mikil áhrif á hlutverk leikskólastarfsfólks.

Leikurinn varð dýpri og hlédræg börn stigu fram

Niðurstöður úr spurningakönnun og viðtölum sýndu að áhrif fækkunar í barnahópnum á leik barnanna voru mjög jákvæð. Í svörunum kom fram að börnin nutu sín betur í leik, leikurinn varð dýpri því börnin fengu meiri tíma og rými til að þróa hann. Einnig kom fram að andrúmsloftið hafi verið rólegra; það dró úr hávaði og áreiti, sem leiddi til aukinnar vellíðunar hjá börnunum. Þátttakendur í spurningakönnuninni og viðtölum nefndu að minna hefði verið um árekstra í barnahópnum. Þá nefndu margir að börn sem alla jafna væru feimin og hlédræg, blómstruðu á þessum tíma, í minni hópum barna.

Neikvæðu áhrifin sem þátttakendur nefndu að minni hópar höfðu á leik barnanna var að sum börnin söknuðu vina sinn sem væru í öðrum hóp. Þetta kom til vegna þess að algengt var að börnunum var skipt upp í tvo hópa sem skiptust á að mæta í leikskólann og þá kom það fyrir að vinir gátu ekki alltaf verið á sama tíma í leikskólanum.

Einn deildarstjóranna lýsir reynslu sinni frá þessum tíma þannig í viðtali:

„…það er ótrúlega magnað að fylgjast með börnunum hafa allt þetta pláss. Þvílíkt svæði sem þau hafa til umráða. Leikurinn þeirra blómstrar, krakkar sem eru yfirleitt ekki vön að leika sér saman eru að tengjast. Börn sem hafa haldið sig til hlés eru kannski alla jafna feimin og ekki mjög framfærin í barnahópnum, þau eru farin að blómstra í þessum aðstæðum, jafnvel taka stjórn í leiknum. Þau einhvern veginn nýta bara svæðið til að þróa leikinn og eru bara um alla deild óhindruð…“

Áhrif minni barnahópa á hlutverk starfsfólks leikskóla

Áhrif fækkunar í barnahópnum hafði einnig greinileg jákvæð áhrif á hlutverk starfsfólks. Þátttakendur töldu að starfið hafi orðið yfirvegaðra og einfaldara. Starfsfólk átti auðveldara með að sinna hverju og einu barni; veita öllum athygli og mæta betur þörfum þeirra. Þetta kom meðal annars til vegna þess að dagskipulag varð sveigjanlegra. Einnig kom fram að gæðastundir í starfinu jukust, t.d. hafði starfsfólk meiri tíma til að sinna faglegum störfum eins og að halda utan um skráningar á námi barnanna. Þátttakendur töluðu um að það hafi verið minna álag í daglegu starfi sem leiddi til aukinnar vellíðunar. Einnig nefndu margir að það hefði dregið verulega úr veikindum starfsfólks.

Neikvæð áhrif fækkunar í barnahópum á hlutverk starfsfólks voru ekki ólík því sem kom fram varðandi leik barnanna, því eitthvað var um að starfsmenn fundu fyrir einmanaleika og söknuðu þess að geta ekki átt í samskiptum og nánu samstarfi við allt starfsfólk leikskólans. Þetta kom til vegna hólfaskiptinga á húsnæði og starfsfólk fór ekki á milli hólfa. Einnig kom fram að mörgum fannst fara of mikill tími í þrif og sótthreinsun, en öll leikföng þurfti að sótthreinsa reglulega auk annars í umhverfinu.

„Mögnuð „tilraun“ til gæðastarfs við skrítnar aðstæður“

Við spurðum þátttakendur að því hvort þeir teldu að áhrifa Covid-19 með takmörkunum á skólahaldi, myndi gæta til lengri tíma á leikskólastarf. Skiptar skoðanir komu fram en margir vonuðust til að hægt væri að draga lærdóm af reynslunni til umbóta fyrir leikskólastarf. Leikskólakennaranemi á fyrsta ári vonaði að það væri hægt að draga úr stífu skipulagi og sagði:

„…ég vona það, ég er samt hrædd um að það verði bara allir dauðfegnir og fari aftur í sama gírinn.. .ég vona að það skapi meiri umræðu…og þá kannski hægt og rólega hægjum við á öllu, það þarf ekki að gera allt, maður þarf ekki að vera í öllu þriggja ára…“

Þegar spurt var hvaða lærdóm mætti draga af þessari reynslu skrifaði einn leikskólastjórinn:

„Við gætum lært svo margt af þessum tíma. Þetta var mögnuð “tilraun” til að sjá gæðastarf verða til við skrítnar aðstæður“

Draga má úr stífu skipulagi og gefa börnum tækifæri til að njóta augnabliksins

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að auka megi tækifæri til leiks, sem og náms, með því að draga úr stífu skipulagi í leikskólastarfi. Eins og fjölmargar rannsóknir sýna þá læra börn á leikskólaaldri best í gegnum leikinn og því ætti þetta að vera eftirsóknarvert markmið. Íslenskt leikskólastarf er oft tengt við norræna leikskólahefð, þar sem áherslan er á lýðræðisleg gildi, barnið sem hæfan einstakling og á nám í gegnum leik þar sem þörfum og áhugaviði barnanna er mætt.

Niðurstöðurnar sýna einnig að það er mikilvægt að huga að tímanum og rýminu sem börnin hafa til leiks. Það er mikilvægt að gefa þeim tækifæri til að njóta augnabliksins, rannsaka umhverfi sitt og upplifa – á eigin forsendum. Eins og niðurstöðurnar sýna þá líður öllum, bæði börnum og starfsfólki betur í þeim aðstæðum og með aukinni vellíðan skapast bestu námsaðstæðurnar.

Við endum á því að vitna í þátttakanda úr röðum leikskólastjóra, sem benti á að þetta snúist um „gæði í starfinu“. Það hlýtur að vera það markmið sem setjum okkur til framtíðar, þegar við rýnum betur í áhrif kófsins á íslenskt leikskólastarf.

Frekari niðurstaðna um áhrif Covid-19 á leikskólastarf er að vænta á næstu mánuðum.

Höfundar halda úti hlaðvarpi um leikskólamál sem nefnist Límónutréð. Límónutréð má finna á helstu hlaðvarpsveitum.

 




COVID-19 varpaði ljósi á jaðarsetningu nemenda

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Anna Björk Sverrisdóttir eru báðar þroskaþjálfar og aðjunktar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þær eru hluti af rannsóknarteymi fræðifólks við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem skoðar áhrif kófsins á menntakerfið.

Rannsókn okkar beindist að þroskaþjálfum og mati þeirra á því hvernig til hefur tekist að veita nemendum stuðning og þjónustu í Covid-19 faraldrinum. Við spurðum einnig um það hvaða áhrif þroskaþjálfar telji að ástandi hafi haft á félagsleg tengsl nemenda og samskipti þeirra við jafnaldra. Þá spurðum við að lokum um það hvort þroskaþjálfar telji að fagþekking þeirra hafi nýst nógu vel við að aðlaga þjónustu við nemendur að breyttum aðstæðum.

Það er fagleg ábyrgð þroskaþjálfa að stuðla að fullri þátttöku nemenda, meðal annars með því aðlaga námsumhverfi að þörfum þeirra og styðja þá í félagslegum samskiptum. Þroskaþjálfar vinna oft með nemendum sem eiga í aukinni hættu á að vera jaðarsettir og má ætla að hafi verið sérstaklega viðkvæmir fyrir áhrifum samkomubannsins í faraldrinum.

Svarhlutfall þroskaþjálfa í grunnskólum var um 40%, en mun minna í framhaldsskólum. Í báðum könnunum spurðum við svipaðra spurninga en í grunnskólakönnun voru fleiri opnar spurningar sem veita okkur mikið af upplýsingum sem áhugavert verður að fylgja eftir með frekari rannsóknum.

Fyrstu niðurstöður benda til þess að þjónusta við börn sem þurftu mestan stuðning til þátttöku í námi hafi skerst meira í samkomubanninu, en hjá öðrum börnum. Í grunnskólakönnun kom fram að sjö nemendur, eða 8,3% fengu enga eða nær enga þjónustu og 35% nemenda fengu skerta þjónustu í skólanum en enga þjónustu í gegnum fjarbúnað til að koma til móts við það. Alls 64,3% svarenda töldu að nemendur þeirra hafi ekki verið í stakk búnir til að nýta sér fjarnám.

Í svörum við opnu spurningunum kom oft fram að ekki væri hægt að kenna mikið fötluðum nemendum í gegnum fjarnám en sumir þroskaþjálfanna voru að sinna mjög ungum börnum.

Þar sem samskipti og samvinna milli heimilis og skóla voru góð gekk betur að veita þjónustu í gegnum fjarbúnað og þroskaþjálfar fóru ýmsar leiðir í að veita þjónustu: Nýttu símhringingar, gönguferðir, leiki, útiveru, netmiðla og stuðning við foreldra. En þessar óformlegu leiðir virðast hafa verið háðar frumkvæði og hugmyndaflugi einstaka þroskaþjálfa og annars starfsfólks.

Í svörum frá þroskaþjálfum í framhaldsskólum kom fram að sumir nemendur sýndu jafnvel meiri virkni og meiri þátttöku í fjarnámi en áður. Í þeirra svörum kom einnig fram ákveðin uppgjöf ef nemendur virtust ekki geta nýtt sér tæknina til fullnustu.

Félagsleg tengsl

Tæp 68% svarenda í hópi þroskaþjálfa sem störfuðu í grunnskólum töldu að nemendum hafi ekki tekist nógu vel, eða lítið sem ekkert tekist að viðhalda félagslegum samskiptum á tíma samkomubanns.

Svo virðist vera að þeim börnum sem áttu félagslegt samskiptanet fyrir Covid, hafi gengið mun betur að viðhalda samskiptum – og jafnvel styrktist félagsnet þeirra á tímabilinu. Sumum börnum virtist henta mjög vel að eiga samskipti í gegnum netmiðla.

En sterkar vísbendingar birtast í rannsókn okkar um það að börn sem voru félagslega jaðarsett fyrir Covid, hafi einangrast enn frekar. Einnig kom fram að félagsleg tengsl barna virtust styrkjast þegar skólastarfið fór fram í smærri hópum, þar sem utanumhald var gott og hugað var að hópefli. Við þær kringumstæður mynduðust jafnvel ný tengsl. Misjafnt var hvort að markvisst var reynt að aðstoða nemendur við félagsleg samskipti. Oft töldu svarendur að það stæði utan við hlutverk skólans, væri eingöngu á ábyrgð foreldra. Flestir þroskaþjálfar í framhaldskólum nefndu að stærstu áskoranir sem nemendur þeirra þurftu að takast á við voru félagslegar, þ.e. að viðhalda félagslegum tengslum.

Fagþekking þroskaþjálfa

Margir þroskaþjálfar upplifðu að fagþekking þeirra hafi nýst mjög vel í þessum fordæmalausu aðstæðum þar sem hugsa þurfti út fyrir boxið. Þeir þroskaþjálfar sem voru í miklu samstarfi við aðrar fag- og starfstéttir innan skólans töluðu um að þeirra þekking hafi gagnast vel, að þeir hafi átt þátt í að finna góðar lausnir þegar þurfti að aðlaga starf og umhverfi að breyttum aðstæðum.

Dæmi voru um að nemendur sem höfðu verið mikið í sérstuðningi, vörðu meiri tíma með bekknum sínum og þar af leiddi að þekking og kunnátta þroskaþjálfa nýttist fleiri börnum.

En ekki var alltaf leitað til samstarfs við þroskaþjálfa eða eftir þeirra fagþekkingu og ráðgjöf, sumir sögðust hafa verið settir í önnur verkefni eða að starf þeirra var lagt niður vegna þess að nemendur þeirra mættu ekki í skólann. Vísbendingar eru um að sumir þroskaþjálfar upplifðu sig jaðarsetta, einangraða og aðgreinda í skólanum og samstarfshópnum. Það virtist vera að hugsunarhátturinn „mínir/þínir nemendur“ hindraði það að þroskaþjálfar gætu nýtt fagþekkingu sína, og það hindraði samstarf ólíkra fagstétta.

Við verðum að tryggja öllum börnum aðgengi að menntun – líka í heimsfaraldri.

Við getum ekki samþykkt að þau börn sem þurfa hvað mestan stuðning sitji á hakanum. Það er ekki ásættanlegt að segja að það sé „ekki hægt“. Við þurfum að breyta viðhorfum. Í samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru skýr ákvæði um bann við mismunum. Heimsfaraldurinn varpaði skýru ljósi á jaðarsetningu nemenda, sumir virðast hafa alveg dottið út úr skólasamfélaginu og félagslegum tengslum. Fyrir börn og unglinga er skóli mikilvægur vettvangur fyrir félagsleg samskipti og tengslamyndum. Fyrir sum börn er skólinn eini vettvangurinn fyrir félagsleg samskipti, þar sem þeir tilheyra hópi.

Við spyrjum: Er það ekki einmitt eitt af hlutverkum skólans að vera sá vettvangur – líka í samkomubanni? Og á skólans ábyrgð að halda áfram að styðja við félagleg tengsl nemenda og finna leiðir til þess? Við þurfum einnig að aðstoða nemendur og fjölskyldur við að byggja upp félagslegt tengslanet sem haldast, þó að skóla- og frístundastarf skerðist.

Við þurfum að setja okkar nemendur í forgrunn – ekki „mína/þína“ nemendur. Allar stéttir sem starfa innan menntakerfis hafa það að markmiði að stuðla að þroska, vellíðan og fullri þátttöku allra barna – við nálgumst bara það verkefni á ólíkan hátt.

Tækifærin í tækninni

Það felast óteljandi möguleikar í tækninni og ætti hún að geta boðið öllum nemendum upp á fjölbreytilegar leiðir til náms og þátttöku. Í faraldrinum varð fólk að snúa bökum saman sem leiddi til mjög góðs samstarfs og samvirkni. Allir lögðu sitt að mörkum til þess að finna bestu lausnirnar – þetta eru kjöraðstæður fyrir nýsköpun og þróunarstarf, fyrir alla nemendur.

Það þarf að hefja markvissa vinnu í samstarfi allra hagaðila, til tryggja öllum börnum bestu tækifæri til náms og þátttöku – alltaf.

 




Traust samvinna lykillinn að árangri

Á dögunum stóð Mennta- og menningarmálaráðuneyti, ásamt Menntavísindasviði Háskóla Íslands fyrir málþinginu Kófið og menntakerfið. 

Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs setti saman grein fyrir Bakhjarlavefinn í tilefni þess.

Menntakerfið hefur sannarlega ekki farið varhluta af þeim hræringum sem upphófust af örlítilli veiru sem í upphafi smitaði eina manneskju. Það er fæstum okkar eðlislægt að forðast annað fólk, við manneskjur erum félagsverur sem þroskumst og nærumst á samskiptum við annað fólk. Samskipti og aðgangur að samfélagi jafningja eru mikilvægur hluti af námi og menntun. Þess vegna höfum við öll haft miklar áhyggjur af takmörkuðu aðgengi barna og ungs fólks að menntastofnunum, og því miður eru vísbendingar um að börn og ungmenni sem eru í viðkvæmri stöðu, hafi farið verr út úr samkomubanni og skertu skólastarfi en önnur.

Nú hafa litið dagsins ljós fyrstu niðurstöður úr könnunum sem hópur fræðimanna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands mótaði, og Menntavísindastofnun lagði fyrir í vor. Tilgangur þessara kannana var að varpa ljósi á hvaða áhrif samkomubann og takmarkanir á skólahaldi höfðu á fyrirkomulag kennslu, á þjónustu og stuðning við börn og ungmenni, nemendur, kennara og annað starfsfólk. Rannsóknir af þessum toga eru gríðarlega mikilvægar, bæði til að draga upp ákveðna mynd af stöðunni – en einnig til að greina lærdóminn og tækifærin sem í umbreytingum felast.

Traust samvinna er lykillinn að því að við náum árangri og ég er sannfærð um að það er einn af styrkleikum þessara kannana að sjónum er beint að viðhorfi og reynslu ólíkra fagstétta, þ.e. kennara, stjórnenda, þroskaþjálfa, náms- og starfsráðgjafa og stjórnenda í frístundastarfi. Allar þessar fagstéttir og fleiri til leika lykilhlutverk í lífi barna og ungmenna og mynda saman grunnstoðir menntakerfisins,

Stefnt er að því að sérrit Netlu um COVID-19 og menntakerfið komi út á næstunni en á vefsíðu Bakhjarla munu á næstunni birtast stuttar greinar sem lýsa fyrstu niðurstöðum úr þessum mikilvægu rannsóknum.




Fag og fagstétt í margbreytilegu samfélagi

Höfundur er Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki menntunar við Menntavísindasvið. Greinin er þriðja greinin í röð greina um mennsku og menntun í margbreytilegu samfélagi.

Loader Loading...
EAD Logo Taking too long?

Reload Reload document
| Open Open in new tab

Download [122.02 KB]




Menntakerfið á tímum COVID-19

Höfundur er Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.

Við höfum fengið dýrmæta innsýn inn í styrk og sveigjanleika íslensks menntakerfis á síðustu vikum. Skóla- og frístundastarfi í landinu var kollvarpað með litlum sem engum fyrirvara og fjarnám og „heimaskólun“ varð veruleiki fjölmargra foreldra og barna. Framhalds- og háskólanemar stunda sitt nám alfarið á rafrænan máta og leik- og grunnskólar hafa endurskipulagt daglegt starf til að tryggja velferð barna og ungmenna. Við stöndum frammi fyrir breyttri heimsmynd og gríðarmiklum áskorunum og þjóðir sem búa við öflug menntakerfi munu standa betur að vígi til að takast á við þær. COVID-19 faraldurinn sem nú geisar dregur skýrt fram hve þýðingarmikið er að efla samskiptahæfni einstaklinga, nýsköpun og hugvit, gagnrýna og siðferðilega hugsun.

Samvinna skiptir sköpum
Að baki þeirri umbyltingu innan menntakerfisins sem við höfum fylgst með undanfarnar vikur liggur kraftmikil samvinna margra. Kennarar, skólastjórnendur og annað starfsfólk skóla hefur unnið baki brotnu við að halda uppi skólastarfi og finna nýjar leiðir og lausnir. Ég vil einnig nefna frístundaleiðbeinendur sem halda utan um frístunda- og félagsstarf, þroskaþjálfa, náms- og starfsráðgjafa, uppeldis- og menntunarfræðinga og stuðningsfulltrúa sem eru mikilvægir bandamenn, talsmenn og ráðgjafar barna og ungmenna. Störf alls þessa fólks eru ómetanleg og skipta sköpum fyrir samfélagið.  Það er rík ástæða til að hafa áhyggjur af þeim sem standa höllum fæti, s.s. vegna fötlunar, fátæktar og annarra félagslegra aðstæðna. Sterkt stuðningsnet sem grípur, styður við og hvetur alla til dáða byggist á samvinnu ólíkra kerfa samfélagsins, ekki síst velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfis.

Skapandi lausnir og sveigjanleiki

Við munum geta dregið mikinn lærdóm af þeirri ótrúlegu umbreytingu sem orðið hefur á daglegu starfi allra skólastiga. Menntakerfið hefur forgangsraðað upp á nýtt og lagt fyrri áætlanir til hliðar. Það hefur verið magnað að fylgjast með öllum þeim nýju aðferðum, verkfærum og hugmyndum sem fagfólk á sviði menntunar hefur gripið til og nýtt til að styðja við virkni og velferð barna og ungmenna. Það er áríðandi að við leggjum við hlustir og heyrum raddir unga fólksins – hver er þeirra upplifun af síðustu vikum? Hver er og verður þeirra veruleiki? Hver eru þeirra forgangsmál?

Við þurfum nú að leysa öll meginverkefni samfélagsins við nýjar og óvæntar aðstæður. Nú sem aldrei fyrr þarf að efla nýsköpun og virkja hugvit til að styðja við atvinnu- og efnahagslíf og renna styrkari stoðum undir samfélagið. Það er því fagnaðarefni að í aðgerðapakka stjórnvalda vegna COVID-faraldursins er veruleg innspýting inn í rannsóknir og vísindi. Hér skipta rannsóknir á menntun og menntakerfinu miklu máli fyrir framtíð Íslands. Dýpri skilningur og skarpari sýn á þróun menntunar mun skila árangri á öllum sviðum samfélagsins.

Gagnrýnin og siðferðileg hugsun

Bent hefur verið á annars konar faraldur sem geisar um þessar mundir, en það er staðleysufaraldur (e. infodemic) sem felst í því að rangar upplýsingar um COVID-19 ferðast hraðar um en veiran sjálf, eins og kom fram í nýlegu viðtali við Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar. Falsfréttir grafa undan stoðum samfélagsins, ýta undir tortryggni og geta skaðað bæði einstaklinga og samfélög. Við þessar aðstæður erum við rækilega minnt á það grundvallarmarkmið menntunar að efla læsi, þar á meðal fjölmiðlalæsi, og einnig gagnrýna og siðferðilega hugsun barna og ungmenna. Hin gagnrýna hugsun felst í því að vega og meta sannleiksgildi og kynna sér uppruna eigin sannfæringa og mótrök þeirra. Hin siðferðilega hugsun felst í því að þroska dómgreind og ætti að móta athafnir okkar, því hún hjálpar okkur að ákvarða að hverju skuli stefnt og hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Meginatriðið hér er að eiginleg menntun snýst um hvort tveggja, skarpa hugsun og gott hjartalag.

Lifum og lærum á nýjan hátt

Sé litið um öxl yfir síðastliðnar vikur fær engum dulist sá kraftur sem býr í skólasamfélaginu, í frístundastarfinu og í velferðarkerfinu okkar. Staðfest hefur verið að menntakerfið getur aðlagast og sveigt sig á örskömmum tíma að samfélagslegri umbyltingu. Við erum sannarlega ekki búin að sjá fyrir endann á þeirri áskorun sem COVID-19 faraldurinn er. Það mun skipta sköpum að okkur takist að styrkja þá lykilhæfni sem gerir okkur kleift að takast á við flókin verkefni, sem einstaklingar og sem samfélag. Við lærum nú að lifa saman á annan hátt en áður. Menntunin sem í þessu felst er gríðarmikil, hún mun efla okkur til lengri tíma.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, 24. apríl 2020.




Lærdómurinn sem felst í því að leika og leiðast

Höfundur er Eva Harðardóttir, doktorsnemi, bakhjarl og kennari við MA.

Á hlaðvarpinu FreshEd www.freshedpodcast.com kennir ýmissa grasa um skóla- og menntamál. Ég er mikill aðdáandi hlaðvarpsins sem hefur það að markmiði að „gera flóknar hugmyndir í menntarannsóknum auðskiljanlegar“ eins og stjórnandi hlaðvarpsins, Will Brehm orðar það. Í nýjasta þætti hlaðvarpsins er rætt við Armand Doucet, kanadískan kennara sem hlotið hefur verðskuldaða athygli fyrir skapandi og spennandi kennsluaðferðir þar sem áhersla er lögð á að laða fram og byggja á hæfni og áhuga nemenda.

Hogwart skóli galdra og seiða

Sem dæmi breytti Armand skólanum sínum í Hogwart skóla, skóla galdra og seiða, í heila viku þar sem nemendur sóttu eingöngu tíma sem Harry Potter og félagar hans myndu sækja í Hogwart án þess að eitt einasta námsmarkmið úr hefðbundnu námskránni félli niður. Í viðtalinu við hann er þó ekki farið inn á Harry Potter skólann, þó áhugaverður sé, heldur fer Armand yfir þá þætti sem hann telur mikilvægasta í námi og skólahaldi á tímum COVID19. Í fyrsta lagi minnir hann okkur á að þegar við stöndum frammi fyrir alheimsfaraldri sem skapar algjört neyðar- og óvissuástand er ekki hægt að gera kröfu á kennara, nemendur eða foreldra að gera hlutina á sama hátt og áður. Falleg birtingarmynd af því hvernig gildi og viðmið geta breyst er til dæmis þegar Armand sinnir yngsta barninu sínu sem fær að njóta sín með babbli og einstaka gargi í bakgrunni viðtalsins. Ég þori að fullyrða að fyrir COVID19 hefði ekki þótt boðlegt að bjóða barni með í viðtal í virtu menntahlaðvarpi.

Maslow before Bloom

Armand lauk nýverið við skýrslu sem hann gaf út ásamt öðrum kennurum og fræðafólki sem leggur mat á þær leiðir og möguleika sem felast í fjarkennslu. Skýrslan var rituð til upplýsingar fyrir stefnumótun UNESCO og er aðgengileg hér. Þar er lögð sérstök áhersla á hugmyndina “Maslow before Bloom” í skólastarfi. Með því er átt við mikilvægi þess að tryggja grunnþarfir allra nemenda áður en farið er að hafa áhyggjur af flokkunarkerfi Bloom og stöðu nemenda í því kerfi. Í þessu samhengi ræðir Armand um það hvernig ójöfnuður eykst og verður áþreifanlegri þegar neyðarástand skapast. Skólar skipa nefnilega stórt hlutverk í lífi margra barna þegar kemur að því að skapa öruggt skjól og halda rútínu. Um þetta skrifaði ég fyrir stuttu síðan hér. Í þessu ljósi hlýtur það vera hlutverk skóla og kennara að tryggja jafnt aðgengi nemenda að námi og leita markvisst leiða til að aðstoða þá nemendur sem eiga ekki sömu möguleika til náms, til dæmis vegna aðstæðna heima fyrir.

Eitt ár á nokkrum dögum

Hann vekur líka máls á því gífurlega álagi sem kennarar og skólastjórnendur hafa upplifað og koma til með að upplifa áfram á næstu misserum. Á kennarafundi sem ég sótti sjálf í vikunni, sagði skólameistari að í eðlilegu umverfi hefðum við beðið um í það minnsta eitt ár til að undirbúa okkur undir þá kennslu og kennsluaðferðir sem við vorum krafin um að kynna okkur, koma á laggirnar og sinna á einungis nokkrum dögum. Margir kennarar stóðu vel að vígi og höfðu nú þegar yfir að búa bæði þekkingu og hæfni til að sinna fjarkennslu með ótal skapandi aðferðum. Aðrir þurftu að leggja meira á sig til þess að læra á ný forrit, nýja hæfni og aðlaga aðferðir sínar að breyttu umhverfi. Hins vegar eru langflestir kennarar að gera sitt allra besta og rúmlega það til að bregðast við.

Krísukennsla? Verjum meiri orku í að tryggja vellíðan og öryggi nemenda

Armand og félagar hans leggja á það ofuráherslu að við gleymum ekki uppeldisfræðilegri hlið kennslunnar á þessum tímum og koma þannig aftur að hugmyndinni um Maslow á undan Bloom. Þannig mætti hugsa sér að fjarkennslan sem flestir háskólar, framhaldsskólar og efri bekkir grunnskóla beita nú, ætti ekki síður að vera tæki til að fylgjast með og sinna grunnþörfum nemenda. Sýna nemendum stuðning, styrkja tengslin og huga að andlegri og félagslegri líðan. Í viðtalinu biðlar Armand til kennara og stjórnenda að eyða meiri orku í að tryggja vellíðan og öryggi nemenda en að fara í flókna og tímafreka vinnu til þess eins að geta haldið uppi hefðbundnum prófum og einkunnagjöf. Staðreyndin er sú að ástandið nú er hvorki hefðbundið né stöðugt og því mikilvægt að hugsa um nám og menntun út frá krísukennslu (e. education in emergencies) fyrst og fremst. Þá nefnir hann einnig að möguleikarnir til þess að meta árangur og getu einstaklinga eru mun fjölbreyttari utan formlegrar menntunar og bendir sem dæmi á aðferðir íþróttaþjálfara til að meta stöðu og árangur einstaklinga og íþróttaliða.

Njótum samveru – aukatíminn er gjöf

Beðinn um góð ráð til foreldra og forráðamanna segir Armand að líkt og kennarar þá þurfi foreldrar fyrst og fremst að hugsa um grunnþarfir, bæði eigin sem og barnanna sinna. Til þess að sinna þeim sem best séu samvera og samræður lykillinn, líkt og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor emeritus, minnti okkur á í góðum pistli. Hann minnir líka aftur á að flest erum við að taka að okkur mörg ný hlutverk sem við ráðum misvel við. Ekki allir foreldrar geta sinnt heimaskóla með stundaskrá, frímínútum, afþreygingu og fullgildum námsmarkmiðum. Og þeir sem afreka þetta í einhvern tíma, geta ekki sinnt því til lengdar. Þá skiptir mun meira máli að njóta samverunnar með börnunum, halda lágmarks rútínu og reglu og leggja fyrst og fremst áherslu á lestur.

Við ættum að líta á allan þann aukatíma sem faraldurinn hefur gefið okkur sem gjöf. Tækifæri til þess að gefa börnum aukið rými þar sem þau skapa sér sjálf sína eigin dagskrá enda er það hverju barni bæði þroskandi og lærdómsríkt að fá tíma til að leika sér og tíma til að leiðast.




Parent and bilingual children at the time of Covid-19 pandemic

By Sigríður Ólafsdóttir, Assistant Professor at the School of Education

Now are unusual times. Preschools and elementary schools offer children to stay in the school either a part of the day or a few days a week. Then children are more at home. It is best that the children stay with their parents, rather than grandpa and granny. Older people are in much bigger danger than young people to become seriously ill if they get the virus.

How can parents and children spend the day in the best way so that the time together is both enjoyable and instructive?

It is important to have decided about the organization of the day. It both shortens the day and children will become more secure because they know to some extent how the day will be.

Children who use different languages at home and in the preschool or compulsory school need to get more opportunities to use Icelandic at home at this time because they spend less time at school. If Icelandic is used less while the situation lasts, there is a danger that the children´s Icelandic skills increase slower. It could lead to worse results in school work. Even if parents and children continue to use their mother tongue in their communication, there are numerous opportunities on how to include Icelandic.

If parents know little or no Icelandic, children can teach their parents or they can learn together.

The day naturally divides according to meals. There is a perfect opportunity that children take part in the preparation, decisions on what to eat and how to cook. Then valuable discussions between parents and children can take place. It is important to name the food, kitchen utensils and actions, and parents and children can practice saying everything both in the mother tongue and in Icelandic. If Icelandic words are missing, someone can get the role to find words online, for example just on google translate.

It depends to a great extent on the age of the child what suits best.

Preschool children

After each meal, it is important to continue using words that came up during the cooking. A good idea is to use them during play, in imitating the cooking with toys. Then it is possible to draw and do handcrafts. Above all, it is important to talk together during the play, use Icelandic words and the mother tongue.

Young children learn indeed best through play and communication that takes place often during the day. The discussions with the child need to revolve around topics that the child shows interest in. The adult has to come to the child and discuss what the child is doing. That gives the best results. And then new opportunities appear to name things and actions in Icelandic.

Children learn best and most through discussions. That is also relevant when books are read. It is wonderful to read books in the mother tongue and also in Icelandic. The adult reads and the child listens and then they talk together about the reading, and that is the best. Often the child continues to read by herself and she uses the pictures for support. It is very useful and the adult takes part by continuing the dialogue and later the reading. When books are read in Icelandic, it is possible to discuss them both in the mother tongue and in Icelandic, and vice versa, when books are read in the mother tongue, it is possible to include Icelandic.

Daily play indoors and outdoors, handicrafts with all sorts of material from here and there, walks in nature, all of these are the source of discussions that increase the language development of children. It is important to include Icelandic words here and there, in addition to the mother tongue, and to use the opportunities that come up to develop Icelandic skills.

Compulsory school children

Older children can have strong opinions about what is cooked every day. It can be fun to look at online recipes, in Icelandic and in the mother tongue. There is a rich vocabulary that includes food, kitchen utensils and cooking methods. It is important to continue to use the new words so that they stick in the memory. Discussions with adults about what should be for lunch and dinner, discussions during the cooking, and during the meals contribute a great deal to the language development of children. Children can even have fun making a cookbook written in Icelandic and the mother tongue.

Discussions will also be content-rich when they link to reading books, in the mother tongue and in Icelandic. It is important that the child reads books in both languages because reading is the best way to increase skills in languages. You find different kinds of words in the books that you never or rarely use when you talk together. Such words play an important role in the study because they also appear when students read and discuss the material in various school subjects. Children who have learned to read can read books of their own choice and it is important to tell the parents about the books and discuss them together. Then even more learning takes place. Then it is also enjoyable to read books together, spend time together with a book, read and talk.

Children of compulsory school age may also have to make up for the little time that they spend in the school. Teachers give them homework. The most effective way is when children don´t work on the projects by themselves, but the parents get good information about what children are doing and they assist as needed. That way even a richer source of discussions appears. It is possible to discuss the subject and to connect it with children´s experience or interests.

Parents though know their children best. Some children are just satisfied working on their projects, but others are not. It is important not to create too much tension in the household. That´s why it is important to notice all the opportunities in the daily family life that can be the origin of a lot of learning. If children receive sufficient opportunities for enjoyable communication with their parents in combination with free play, they will feel well and so will their families. Then it is more probable that children have the peace of mind and energy to tackle the school subjects.

Discussions about COVID-19

Children also need to discuss the current situation with their parents but it depends on the age of the child how it is best to approach this. Now all news is packed with discussions about COVID-19 and there are daily information meetings with our key people here in the country. It is good that families watch together with older children and get information on how things develop and how authorities react. For bilingual families, it is a golden opportunity to follow with the development in Iceland and also in the country of origin and to compare how the countries solve matters. Then it is necessary to discuss the matters within the family. The discussions are very useful. Without doubt, many words come up, both in Icelandic and in the mother tongue, that are new for the child and even for the parents, and it is necessary to pick those words, look at their meaning, find how they are used for example on the internet. Then it is necessary to use these words in the discussions.

Translation to English: Renata Emilsson Pesková.




Ræðum saman heima

Höfundur er Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor emeritus í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands.

Vinnan má bíða á meðan þú sýnir barninu þínu regnbogann,

en regnboginn bíður ekki meðan þú lýkur verkinu.

Á þessum óvenjulega tíma sem ríkir nú í samfélaginu verja flestir foreldrar og börn þeirra meiri tíma saman. Sérstakt tækifæri gefst þeim því til að treysta böndin enn frekar og styrkja og hlúa að börnunum. Hér skulum við huga að mikilvægi þess að foreldrar og börn þeirra gefi sér tíma til að ræða saman.

Í samræðum foreldra og barna augliti til auglitis þar sem hugsun barnanna er löðuð fram gerist svo margt í senn. Í samræðunni skapast nánd. Barnið finnur að foreldrið veitir því athygli og hlustar á það. Traust myndast og ríkari öryggiskennd sem er svo mikilvægur grunnur að líðan þess og þroska á mörgum sviðum.

Í samræðunni er mikilvægt að foreldrið laði fram hugsun barnsins eða ungmennisins og hlusti vel á það sem það hefur að segja. Því miður er okkur svo gjarnt að hafa orðið, segja okkar skoðun og ráðleggja og leita því ekki nægilega eftir hugsun þeirra. Við þurfum því að þjálfa okkur í því að laða fram hugsun barna og ungmenna. Það þekki ég af eigin raun.

Við getum gert það meðal annars með því að nota opnar spurningar þegar við ræðum saman. Slíkar spurningar hefjast á spurnarorðunum: Hvað … Hvernig … Hvers vegna. Sem dæmi ef verið er að lesa sögu, grein, frétt eða skoða mynd saman: Hvað gerðist í sögunni? Af hverju ætli það hafi gerst? Hvernig ætli X hafi liðið? Af hverju ætli honum/henni hafi liðið þannig? Hvernig ætli Y hafi liðið? Hvers vegna? Hvað væri hægt að gera? Af hverju væri það mikilvægt? Og svona mætti áfram halda. Opnar spurningar gefa þannig færi á margvíslegum svörum og gefa því svigrúm til að láta hugann fara víða; ekkert eitt svar er rétt.

Börnin og ungmennin fá í samræðum tækifæri til að tjá sig, spá í hlutina og orða hugsun sína og auka um leið orðaforða sinn og frásagnarhæfni. Í samræðunni getum við jafnframt ýtt undir að þau setji sig í spor annarra, sýni samlíðan með öðrum og skoði mál frá mismunandi hliðum (sbr. dæmið hér að ofan). Við getum ýtt undir að þau læri að hlusta, rökstyðji mál sitt og hugsi sjálfstætt. Og við getum ýtt undir frumkvæði þeirra og skapandi hugsun.

Þetta veganesti er svo brýnt fyrir þau út í lífið, bæði í einkalífi, á starfsvettvangi og sem virkir borgarar í lýðræðissamfélagi.

Ekki má heldur gleyma því að það er einstaklega gaman að ræða við börn og ungmenni. Þau koma okkur sífellt á óvart með áhugaverðum og skemmtilegum vangaveltum sínum.