Framhaldsskólinn á tímum COVID-19
Guðrún Ragnarsdóttir er lektor í stjórnun menntastofnana og hluti af rannsóknarteymi fræðifólks á Menntavísindasviði Háskóla Íslands sem rannsakar áhrif fyrstu bylgju COVID-19 á framhaldsskólastarf.
Í fyrstu greiningu okkar á spurningalistakönnun sem lögð var fyrir allt starfsfólk í framhaldsskólum koma margir áhugaverðir þættir í ljós um starfið innan framhaldsskólans á tímum samkomubanns. Við erum rétt að byrja að skoða gögnin og er með áhersluna á framhaldsskólakennara í þessari atrennu. Um níu af hverjum tíu framhaldsskólakennurum stunduðu vinnu sína alfarið eða að mestum hluta annars staðar en í skólabyggingu og 73% kennara taldi sig hafa næði til að sinna starfi sínu. Tæplega sjö afhverjum tíu kennurum fann fyrir mun meiri eða nokkuð meiri streitu í starfi á meðan skólar voru lokaðir og um þriðjungi framhaldsskólakennara fannst starfsskyldur sínar óskýrari eða nokkuð óskýrari í samkomubanni. Þessar fyrstu niðurstöður sýna skýrt hversu mikil áskorun mætti framhaldsskólakennurum í vor. Kennarar upplifðu meiri streitu, vinnuálagið jókst og starf kennara var óskýrara og flóknara en áður.
Upplifun framhaldsskólakennara á stöðu nemenda
Tæplega átta af hverjum tíu framhaldsskólakennurum töldu nemendur hafa verið undir mun meira, eða nokkuð meira andlegu álagi á meðan á samkomubanni stóð. Rúmlega þriðjungur sagði námsálag á nemendur í sinni kennslu hafa aukist mikið eða nokkuð mikið. Um helmingur kennara taldi mætingu nemenda vera verri en fyrir samkomubann og tæplega helmingur kennara sagði virkni þeirra hafa minnkað. Ég og Súsanna Margrét Gestsdóttir samstarfskona mín gerðum forathugun í kringum páska og heyrðum í framhaldsskólakennurum, nemendum og foreldrum. Það samtal leiddi í ljós aukið álag og streitu á meðal nemenda og flókið samspil heimilislífs og vinnu. Fróðlegt verður að skoða þessa þætti enn frekar við greiningu á gögnunum sem við höfum undir höndum.
Fyrirkomulag kennslu í framhaldsskólum
Áfangar í framhaldsskólum féllu að öllu, eða einhverju leyti niður hjá 9% kennara í framhaldsskólum á meðan samkomubanni stóð. Í þessu samhengi verður áhugavert að skoða ólíka kennarahópa. Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um starfsnámið og rannsakendur vinna á næstunni frekari niðurstöður um upplifun starfsnámskennara á tímum samkomubanns. Alls söguðst 73% framhaldsskólakennara hafa að öllu eða nokkru leyti hafa kennt samkvæmt stundatöflu, 16% að litlu leyti og 11% ekki. Tæplega helmingur framhaldsskólakennara sagðist hafa fengið lítinn kennslufræðilegan stuðning. Í þessu samhengi verður spennandi að skoða hvernig stuðningi var almennt háttað innan skólanna en að mínu mati gefa þessar niðurstöður mikilvægar vísbendingar um það hvernig almennt er staðið að faglegum stuðningi við kennara í skólum.
Það dró úr samvinnu nemenda – og fjölbreytni námsmats
Skipulag kennslu er viðfangsefni sem ég brenn fyrir og hef haft áhyggjur af, einkum í ljósi félagslegrar einangrunar á tímum samkomubanns og andlegs álags á nemendur. Um helmingur framhaldsskólakennara byggði kennsluna meira en áður á einstaklingsframlagi, 38% kennara gekk verr en áður að beita fjölbreyttum kennsluháttum og 64% sögðu að þeim gengi verr en áður að leggja áherslu á samvinnu nemenda. Ég tel að hér þurfum við að þróa af krafti aðferðir í fjarnámi sem stuðla að félagslegri virkni og samstarfi nemenda, en það gefur augaleið að nemendur eru oft ansi einmana fyrir framan tölvuskjáinn alla daga.
Sömu sögu er að segja um námsmat. Tæplega þriðjungi framhaldsskóakennara gekk verr en áður að ljúka námsmati jafnóðum og 42% sögðust hafa færri tækifæri til að nota fjölbreytt námsmat í samkomubanni. Það verður spennandi að skoða námsmatið enn frekar enda margar breytur í gagnasettinu sem mæla þann þátt.
Tækifærin framundan: Lærdómssamfélög kennara og samvinna nemenda
Hið jákvæða er að allflestir framhaldsskólakennarar hafa tileinkað sér nýjungar í kennslu, þrátt fyrir að margar áskoranir hafi mætt þeim á tímum heimsfaraldurs. Það verður gaman að rýna enn betur í gögnin. Ég tel mikilvægt að þróa og þjálfa betur samvinnunámsaðferðir í fjarkennslu og næra með mun markvissari hætti félagsleg samskipti nemenda. Þá tel ég að afar mikilvægt sé að við byggjum upp virk lærdómssamfélög innan framhaldsskólanna með markvissum stuðningi fræðasamfélagsins og menntayfirvalda. Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum tækifærið og skrifum samtímasöguna, lærum meira um kreppur og breytingastarf í skólum, ásamt því að miðla hugmyndum og aðferðum til vettvangs. Það eru stóru tækifærin framundan.