Sterkari tengsl milli heimila og grunnskóla í fyrstu bylgju COVID-19
Kristín Jónsdóttir, kennslukona, dósent og forseti Deildar kennslu og menntunarfræði.
Ein af rannsóknum okkar á Menntavísindasviði á áhrifum kófsins á menntakerfið beindist að samstarfi milli heimila og grunnskóla. Hér segi ég frá fyrstu niðurstöðum úr spurningakönnun sem send var til stjórnenda grunnskóla. Niðurstöðurnar eru athyglisverðar fyrir margra hluta sakir og verður ánægjulegt að greina gögnin enn frekar til að koma auga á mikilvægar vísbendingar sem styrkja geta til framtíðar skólastarf, tengsl heimila og skóla og vellíðan barna.
Niðurstöðurnar varpa ljósi á að í fyrstu bylgju COVID ríkti gagnkvæmur stuðningur milli skólastjórnenda og foreldra, 55% stjórnenda segjast hafa fengið stuðning í störfum sínum frá foreldrum og þrír af hverjum fjórum stjórnendum sögðu að samstarfið við foreldra hefði verið auðvelt. Um 43% stjórnenda sögðu að foreldrar hefðu leitað mikið til þeirra eftir ráðgjöf og stuðningi og skólastjórnendur virðast hafa lagt mikla rækt við samstarf við foreldra. Þannig sögðu 38% skólastjórnenda að mun meiri tími hefði farið í samstarfið, sem eins og áður sagði gekk að miklu leyti mjög vel.
Skólastjórnendur glímdu við COVID af ósérhlífni
Ein af spurningunum sem beint var til skólastjórnenda snéri að viðbrögðum þeirra við fullyrðingunni: „Ég hef haft gaman af að glíma við þær áskoranir sem COVID-19 faraldurinn hefur fært mér“. Þrír af hverjum fjórum skólastjórnendum sögðust hafa haft gaman af þeim áskorunum sem kófið færði þeim. Að mínu mati tel ég þetta vera til marks um fagmennsku og metnað stjórnenda í grunnskólum, sem hlífa sér hvergi. Þá telur mikill meirihluti skólastjórnenda líklegt að kófið muni hafa áhrif á kennsluhætti til frambúðar. Það er sannarlega verðugt rannsóknarefni að rýna betur í gögn okkar fræðifólks á Menntavísindasviði og skoða betur í hverju þær breytingar fólust.
Tengjumst!
Eitt atriði tel ég mikilvægt að við höfum öll í huga og það eru börn í viðkvæmri stöðu. Í rannsóknum mínum sem og kollega minna á áhrifum kófsins á menntakerfið blasir við að börn í viðkvæmum hópum hafa ekki farið vel út úr kófinu. Sérstaklega vil ég draga fram áhrifin á börn af erlendum uppruna og mikilvægi þess að við styrkjum tengsl heimila þar sem móðurmál barna er annað en íslenska. Nýverið hlaut ég styrk úr samfélagsverkefnasjóði Háskóla Íslands til að þróa og hanna fræðsluefni fyrir foreldra grunnskólabarna af erlendum uppruna og það verður unnið með kennaranemum í meistaranámi. Fræðsluefnið verður í fjórum hlutum og snýst um hefðir og venjur í samskiptum heimila og skóla; um mikilvægi þess að foreldrar og kennarar starfi saman fyrir aðlögun barnanna í íslensku samfélagi, vellíðan þeirra og námsárangur; um réttindi og skyldur foreldra vegna skólagöngu barna sinna; og loks um það hvernig foreldrar geti stutt við íslenskunám og lestrarþjálfun barna og unglinga.
Þetta verkefni og fleiri til, ásamt mikilvægum niðurstöðum rannsókna á stöðu viðkvæmra hópa á tímum heimsfaraldurs, eru framlag okkar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands til að stuðla að farsælli skólagöngu, velferð og þátttöku barna og fjölskyldna af erlendum uppruna. Það skiptir miklu, fyrir okkur öll.