Leikur barna blómstraði á tímum takmarkana á skólahaldi

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, lektor og leikskólakennari og Svava Björg Mörk, aðjunkt, doktorsnemi og leikskólakennari unnu að rannsókn á áhrifum takmarkana á skólahaldi á tímum COVID-19. Þær starfa báðar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og kynntu fyrstu niðurstöður sínar á málþingi mennta- og menningarmálaráðuneytis um áhrif kófsins á menntakerfið, sem fram fór 10. september.

Leikur barna blómstraði á tímum takmarkana á skólahaldi 

Í rannsókn okkar skoðuðum við áhrif takmarkanna á leikskólastarf með sérstakri athygli á leik barna og hlutverk starfsfólks. Við söfnuðum gagna með spurningakönnun sem var send á netföng 248 leikskóla. Svör bárust frá 172 leikskólum og leikskólastjórar voru í meirihluta þeirra sem svöruðu. Auk þess söfnuðum við gögnum með 16 einstaklingsviðtölum á meðan samkomubanninu stóð, þátttakendur voru leikskólastjórar, deildarstjórar og leikskólakennaranemar við Menntavísindasvið.

Minni barnahópar höfðu mikil áhrif á leik leikskólabarna

Algengt var að leikskólar á landinu skipulögðu starf sitt á þann veg að börnin skiptust á að mæta í leikskólann, með þeim afleiðingum að sá hópur barna sem dvaldi hverju sinni í leikskólunum var mun minni. Í 138 leikskólum voru færri börn í hóp en áður og í rannsókninni spurðum við sérstaklega um áhrif þessa. Í 61% tilvika mátu stjórnendur að það hefði haft mikil, eða frekar mikil áhrif á leik barnanna. Þriðjungur stjórnenda töldu að minni barnahópar hefði haft mjög mikil áhrif á leikinn. Þá sýndu niðurstöður einnig að 71% svarenda töldu að minni barnahópar hafi haft mjög mikil eða frekar mikil áhrif á hlutverk leikskólastarfsfólks.

Leikurinn varð dýpri og hlédræg börn stigu fram

Niðurstöður úr spurningakönnun og viðtölum sýndu að áhrif fækkunar í barnahópnum á leik barnanna voru mjög jákvæð. Í svörunum kom fram að börnin nutu sín betur í leik, leikurinn varð dýpri því börnin fengu meiri tíma og rými til að þróa hann. Einnig kom fram að andrúmsloftið hafi verið rólegra; það dró úr hávaði og áreiti, sem leiddi til aukinnar vellíðunar hjá börnunum. Þátttakendur í spurningakönnuninni og viðtölum nefndu að minna hefði verið um árekstra í barnahópnum. Þá nefndu margir að börn sem alla jafna væru feimin og hlédræg, blómstruðu á þessum tíma, í minni hópum barna.

Neikvæðu áhrifin sem þátttakendur nefndu að minni hópar höfðu á leik barnanna var að sum börnin söknuðu vina sinn sem væru í öðrum hóp. Þetta kom til vegna þess að algengt var að börnunum var skipt upp í tvo hópa sem skiptust á að mæta í leikskólann og þá kom það fyrir að vinir gátu ekki alltaf verið á sama tíma í leikskólanum.

Einn deildarstjóranna lýsir reynslu sinni frá þessum tíma þannig í viðtali:

„…það er ótrúlega magnað að fylgjast með börnunum hafa allt þetta pláss. Þvílíkt svæði sem þau hafa til umráða. Leikurinn þeirra blómstrar, krakkar sem eru yfirleitt ekki vön að leika sér saman eru að tengjast. Börn sem hafa haldið sig til hlés eru kannski alla jafna feimin og ekki mjög framfærin í barnahópnum, þau eru farin að blómstra í þessum aðstæðum, jafnvel taka stjórn í leiknum. Þau einhvern veginn nýta bara svæðið til að þróa leikinn og eru bara um alla deild óhindruð…“

Áhrif minni barnahópa á hlutverk starfsfólks leikskóla

Áhrif fækkunar í barnahópnum hafði einnig greinileg jákvæð áhrif á hlutverk starfsfólks. Þátttakendur töldu að starfið hafi orðið yfirvegaðra og einfaldara. Starfsfólk átti auðveldara með að sinna hverju og einu barni; veita öllum athygli og mæta betur þörfum þeirra. Þetta kom meðal annars til vegna þess að dagskipulag varð sveigjanlegra. Einnig kom fram að gæðastundir í starfinu jukust, t.d. hafði starfsfólk meiri tíma til að sinna faglegum störfum eins og að halda utan um skráningar á námi barnanna. Þátttakendur töluðu um að það hafi verið minna álag í daglegu starfi sem leiddi til aukinnar vellíðunar. Einnig nefndu margir að það hefði dregið verulega úr veikindum starfsfólks.

Neikvæð áhrif fækkunar í barnahópum á hlutverk starfsfólks voru ekki ólík því sem kom fram varðandi leik barnanna, því eitthvað var um að starfsmenn fundu fyrir einmanaleika og söknuðu þess að geta ekki átt í samskiptum og nánu samstarfi við allt starfsfólk leikskólans. Þetta kom til vegna hólfaskiptinga á húsnæði og starfsfólk fór ekki á milli hólfa. Einnig kom fram að mörgum fannst fara of mikill tími í þrif og sótthreinsun, en öll leikföng þurfti að sótthreinsa reglulega auk annars í umhverfinu.

„Mögnuð „tilraun“ til gæðastarfs við skrítnar aðstæður“

Við spurðum þátttakendur að því hvort þeir teldu að áhrifa Covid-19 með takmörkunum á skólahaldi, myndi gæta til lengri tíma á leikskólastarf. Skiptar skoðanir komu fram en margir vonuðust til að hægt væri að draga lærdóm af reynslunni til umbóta fyrir leikskólastarf. Leikskólakennaranemi á fyrsta ári vonaði að það væri hægt að draga úr stífu skipulagi og sagði:

„…ég vona það, ég er samt hrædd um að það verði bara allir dauðfegnir og fari aftur í sama gírinn.. .ég vona að það skapi meiri umræðu…og þá kannski hægt og rólega hægjum við á öllu, það þarf ekki að gera allt, maður þarf ekki að vera í öllu þriggja ára…“

Þegar spurt var hvaða lærdóm mætti draga af þessari reynslu skrifaði einn leikskólastjórinn:

„Við gætum lært svo margt af þessum tíma. Þetta var mögnuð “tilraun” til að sjá gæðastarf verða til við skrítnar aðstæður“

Draga má úr stífu skipulagi og gefa börnum tækifæri til að njóta augnabliksins

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að auka megi tækifæri til leiks, sem og náms, með því að draga úr stífu skipulagi í leikskólastarfi. Eins og fjölmargar rannsóknir sýna þá læra börn á leikskólaaldri best í gegnum leikinn og því ætti þetta að vera eftirsóknarvert markmið. Íslenskt leikskólastarf er oft tengt við norræna leikskólahefð, þar sem áherslan er á lýðræðisleg gildi, barnið sem hæfan einstakling og á nám í gegnum leik þar sem þörfum og áhugaviði barnanna er mætt.

Niðurstöðurnar sýna einnig að það er mikilvægt að huga að tímanum og rýminu sem börnin hafa til leiks. Það er mikilvægt að gefa þeim tækifæri til að njóta augnabliksins, rannsaka umhverfi sitt og upplifa – á eigin forsendum. Eins og niðurstöðurnar sýna þá líður öllum, bæði börnum og starfsfólki betur í þeim aðstæðum og með aukinni vellíðan skapast bestu námsaðstæðurnar.

Við endum á því að vitna í þátttakanda úr röðum leikskólastjóra, sem benti á að þetta snúist um „gæði í starfinu“. Það hlýtur að vera það markmið sem setjum okkur til framtíðar, þegar við rýnum betur í áhrif kófsins á íslenskt leikskólastarf.

Frekari niðurstaðna um áhrif Covid-19 á leikskólastarf er að vænta á næstu mánuðum.

Höfundar halda úti hlaðvarpi um leikskólamál sem nefnist Límónutréð. Límónutréð má finna á helstu hlaðvarpsveitum.