Traust samvinna lykillinn að árangri

Á dögunum stóð Mennta- og menningarmálaráðuneyti, ásamt Menntavísindasviði Háskóla Íslands fyrir málþinginu Kófið og menntakerfið. 

Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs setti saman grein fyrir Bakhjarlavefinn í tilefni þess.

Menntakerfið hefur sannarlega ekki farið varhluta af þeim hræringum sem upphófust af örlítilli veiru sem í upphafi smitaði eina manneskju. Það er fæstum okkar eðlislægt að forðast annað fólk, við manneskjur erum félagsverur sem þroskumst og nærumst á samskiptum við annað fólk. Samskipti og aðgangur að samfélagi jafningja eru mikilvægur hluti af námi og menntun. Þess vegna höfum við öll haft miklar áhyggjur af takmörkuðu aðgengi barna og ungs fólks að menntastofnunum, og því miður eru vísbendingar um að börn og ungmenni sem eru í viðkvæmri stöðu, hafi farið verr út úr samkomubanni og skertu skólastarfi en önnur.

Nú hafa litið dagsins ljós fyrstu niðurstöður úr könnunum sem hópur fræðimanna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands mótaði, og Menntavísindastofnun lagði fyrir í vor. Tilgangur þessara kannana var að varpa ljósi á hvaða áhrif samkomubann og takmarkanir á skólahaldi höfðu á fyrirkomulag kennslu, á þjónustu og stuðning við börn og ungmenni, nemendur, kennara og annað starfsfólk. Rannsóknir af þessum toga eru gríðarlega mikilvægar, bæði til að draga upp ákveðna mynd af stöðunni – en einnig til að greina lærdóminn og tækifærin sem í umbreytingum felast.

Traust samvinna er lykillinn að því að við náum árangri og ég er sannfærð um að það er einn af styrkleikum þessara kannana að sjónum er beint að viðhorfi og reynslu ólíkra fagstétta, þ.e. kennara, stjórnenda, þroskaþjálfa, náms- og starfsráðgjafa og stjórnenda í frístundastarfi. Allar þessar fagstéttir og fleiri til leika lykilhlutverk í lífi barna og ungmenna og mynda saman grunnstoðir menntakerfisins,

Stefnt er að því að sérrit Netlu um COVID-19 og menntakerfið komi út á næstunni en á vefsíðu Bakhjarla munu á næstunni birtast stuttar greinar sem lýsa fyrstu niðurstöðum úr þessum mikilvægu rannsóknum.