COVID-19 varpaði ljósi á jaðarsetningu nemenda

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Anna Björk Sverrisdóttir eru báðar þroskaþjálfar og aðjunktar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þær eru hluti af rannsóknarteymi fræðifólks við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem skoðar áhrif kófsins á menntakerfið.

Rannsókn okkar beindist að þroskaþjálfum og mati þeirra á því hvernig til hefur tekist að veita nemendum stuðning og þjónustu í Covid-19 faraldrinum. Við spurðum einnig um það hvaða áhrif þroskaþjálfar telji að ástandi hafi haft á félagsleg tengsl nemenda og samskipti þeirra við jafnaldra. Þá spurðum við að lokum um það hvort þroskaþjálfar telji að fagþekking þeirra hafi nýst nógu vel við að aðlaga þjónustu við nemendur að breyttum aðstæðum.

Það er fagleg ábyrgð þroskaþjálfa að stuðla að fullri þátttöku nemenda, meðal annars með því aðlaga námsumhverfi að þörfum þeirra og styðja þá í félagslegum samskiptum. Þroskaþjálfar vinna oft með nemendum sem eiga í aukinni hættu á að vera jaðarsettir og má ætla að hafi verið sérstaklega viðkvæmir fyrir áhrifum samkomubannsins í faraldrinum.

Svarhlutfall þroskaþjálfa í grunnskólum var um 40%, en mun minna í framhaldsskólum. Í báðum könnunum spurðum við svipaðra spurninga en í grunnskólakönnun voru fleiri opnar spurningar sem veita okkur mikið af upplýsingum sem áhugavert verður að fylgja eftir með frekari rannsóknum.

Fyrstu niðurstöður benda til þess að þjónusta við börn sem þurftu mestan stuðning til þátttöku í námi hafi skerst meira í samkomubanninu, en hjá öðrum börnum. Í grunnskólakönnun kom fram að sjö nemendur, eða 8,3% fengu enga eða nær enga þjónustu og 35% nemenda fengu skerta þjónustu í skólanum en enga þjónustu í gegnum fjarbúnað til að koma til móts við það. Alls 64,3% svarenda töldu að nemendur þeirra hafi ekki verið í stakk búnir til að nýta sér fjarnám.

Í svörum við opnu spurningunum kom oft fram að ekki væri hægt að kenna mikið fötluðum nemendum í gegnum fjarnám en sumir þroskaþjálfanna voru að sinna mjög ungum börnum.

Þar sem samskipti og samvinna milli heimilis og skóla voru góð gekk betur að veita þjónustu í gegnum fjarbúnað og þroskaþjálfar fóru ýmsar leiðir í að veita þjónustu: Nýttu símhringingar, gönguferðir, leiki, útiveru, netmiðla og stuðning við foreldra. En þessar óformlegu leiðir virðast hafa verið háðar frumkvæði og hugmyndaflugi einstaka þroskaþjálfa og annars starfsfólks.

Í svörum frá þroskaþjálfum í framhaldsskólum kom fram að sumir nemendur sýndu jafnvel meiri virkni og meiri þátttöku í fjarnámi en áður. Í þeirra svörum kom einnig fram ákveðin uppgjöf ef nemendur virtust ekki geta nýtt sér tæknina til fullnustu.

Félagsleg tengsl

Tæp 68% svarenda í hópi þroskaþjálfa sem störfuðu í grunnskólum töldu að nemendum hafi ekki tekist nógu vel, eða lítið sem ekkert tekist að viðhalda félagslegum samskiptum á tíma samkomubanns.

Svo virðist vera að þeim börnum sem áttu félagslegt samskiptanet fyrir Covid, hafi gengið mun betur að viðhalda samskiptum – og jafnvel styrktist félagsnet þeirra á tímabilinu. Sumum börnum virtist henta mjög vel að eiga samskipti í gegnum netmiðla.

En sterkar vísbendingar birtast í rannsókn okkar um það að börn sem voru félagslega jaðarsett fyrir Covid, hafi einangrast enn frekar. Einnig kom fram að félagsleg tengsl barna virtust styrkjast þegar skólastarfið fór fram í smærri hópum, þar sem utanumhald var gott og hugað var að hópefli. Við þær kringumstæður mynduðust jafnvel ný tengsl. Misjafnt var hvort að markvisst var reynt að aðstoða nemendur við félagsleg samskipti. Oft töldu svarendur að það stæði utan við hlutverk skólans, væri eingöngu á ábyrgð foreldra. Flestir þroskaþjálfar í framhaldskólum nefndu að stærstu áskoranir sem nemendur þeirra þurftu að takast á við voru félagslegar, þ.e. að viðhalda félagslegum tengslum.

Fagþekking þroskaþjálfa

Margir þroskaþjálfar upplifðu að fagþekking þeirra hafi nýst mjög vel í þessum fordæmalausu aðstæðum þar sem hugsa þurfti út fyrir boxið. Þeir þroskaþjálfar sem voru í miklu samstarfi við aðrar fag- og starfstéttir innan skólans töluðu um að þeirra þekking hafi gagnast vel, að þeir hafi átt þátt í að finna góðar lausnir þegar þurfti að aðlaga starf og umhverfi að breyttum aðstæðum.

Dæmi voru um að nemendur sem höfðu verið mikið í sérstuðningi, vörðu meiri tíma með bekknum sínum og þar af leiddi að þekking og kunnátta þroskaþjálfa nýttist fleiri börnum.

En ekki var alltaf leitað til samstarfs við þroskaþjálfa eða eftir þeirra fagþekkingu og ráðgjöf, sumir sögðust hafa verið settir í önnur verkefni eða að starf þeirra var lagt niður vegna þess að nemendur þeirra mættu ekki í skólann. Vísbendingar eru um að sumir þroskaþjálfar upplifðu sig jaðarsetta, einangraða og aðgreinda í skólanum og samstarfshópnum. Það virtist vera að hugsunarhátturinn „mínir/þínir nemendur“ hindraði það að þroskaþjálfar gætu nýtt fagþekkingu sína, og það hindraði samstarf ólíkra fagstétta.

Við verðum að tryggja öllum börnum aðgengi að menntun – líka í heimsfaraldri.

Við getum ekki samþykkt að þau börn sem þurfa hvað mestan stuðning sitji á hakanum. Það er ekki ásættanlegt að segja að það sé „ekki hægt“. Við þurfum að breyta viðhorfum. Í samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru skýr ákvæði um bann við mismunum. Heimsfaraldurinn varpaði skýru ljósi á jaðarsetningu nemenda, sumir virðast hafa alveg dottið út úr skólasamfélaginu og félagslegum tengslum. Fyrir börn og unglinga er skóli mikilvægur vettvangur fyrir félagsleg samskipti og tengslamyndum. Fyrir sum börn er skólinn eini vettvangurinn fyrir félagsleg samskipti, þar sem þeir tilheyra hópi.

Við spyrjum: Er það ekki einmitt eitt af hlutverkum skólans að vera sá vettvangur – líka í samkomubanni? Og á skólans ábyrgð að halda áfram að styðja við félagleg tengsl nemenda og finna leiðir til þess? Við þurfum einnig að aðstoða nemendur og fjölskyldur við að byggja upp félagslegt tengslanet sem haldast, þó að skóla- og frístundastarf skerðist.

Við þurfum að setja okkar nemendur í forgrunn – ekki „mína/þína“ nemendur. Allar stéttir sem starfa innan menntakerfis hafa það að markmiði að stuðla að þroska, vellíðan og fullri þátttöku allra barna – við nálgumst bara það verkefni á ólíkan hátt.

Tækifærin í tækninni

Það felast óteljandi möguleikar í tækninni og ætti hún að geta boðið öllum nemendum upp á fjölbreytilegar leiðir til náms og þátttöku. Í faraldrinum varð fólk að snúa bökum saman sem leiddi til mjög góðs samstarfs og samvirkni. Allir lögðu sitt að mörkum til þess að finna bestu lausnirnar – þetta eru kjöraðstæður fyrir nýsköpun og þróunarstarf, fyrir alla nemendur.

Það þarf að hefja markvissa vinnu í samstarfi allra hagaðila, til tryggja öllum börnum bestu tækifæri til náms og þátttöku – alltaf.