Skapandi hugsun og heimspekileg umræða hjá ungum börnum
Ólafur Páll Jónsson og Björn Rúnar Egilsson ræddu leiðir til að rækta skapandi hugsun og eiga heimspekilegar umræður við ung börn.
Upptöku á fundinum má finna hér.
Virkjum pælingarmáttinn
Við getum kennt börnum að þau eigi tilkall til eigin skoðana og búi sjálf yfir þekkingu. Mikilvægt er að gefa sér tíma til að velta vöngum og koma ekki strax með „rétt“ svör við spurningum. Leiðréttingar og svör geta lokað á frekari samræðu og gefið til kynna að aðeins fullorðnir viti svörin. Hefjum heldur samtal með spurnarorðunum; hvað, af hverju og hvernig. Þannig getum við hjálpað börnum að verða leitendur þekkingar, ekki bara þiggjendur.
Er sköpun ferli eða afurð?
Í stað þess að hugsa um ferli og afurð sem tvo aðskilda þætti sköpunar má líta á sköpun sem hringrás þar sem matið á afurðinni getur verið kveikja að nýju sköpunarferli. Matið á afurðinni er hins vegar sjaldnast í höndum barnanna sjálfra heldur á umráðasvæði fullorðinna. Þetta getur alið á mistakaótta og hamlað skapandi hugsun síðar meir.
Börn eru fullfær um að tjá sig um flókna hluti – ef þau fá hvatningu og fá að taka sér pláss.
Sögur, leikir og listaverk geta verið uppspretta heimspekilegra samræðna. Einnig má hefja samræðu við hversdagslegar aðstæður, þegar við spilum borðspil eða segjum sögur sem börnin þekkja. Hér gildir ávallt að flýta sér hægt. Drífum okkur ekki að klára söguna heldur færum okkur úr upplifun yfir í spyrjandi túlkun. Fara má úr því að spyrja Hver …? og Hvað …? yfir í Hvers vegna …? og Hvernig …? Leyfum börnunum að útskýra upplifun sína með eigin orðum. Að lokum má spyrja almennra spurninga sem tengjast efninu, til dæmis hvort það sé sanngjarnt að þeir sem eru stórir fái meira en þeir sem minni eru.
Samræðan er mikilvægari en niðurstaðan
Spurningar barna eru oft bón um frekari samræðu. Við þurfum ekki alltaf að vera með svör á reiðum höndum og megum gjarnan svara „ég veit það ekki, hvað heldur þú?“ Verum ekki of fljót að slá framandi túlkanir út af borðinu og leyfum okkur að hugsa saman án þess að leiðrétta börnin sífellt á lokaðan hátt. Við þurfum að læra að hlusta, tjá okkur, umbera skoðanir annarra, meta hugmyndir og rök og að færa rök fyrir máli okkar. Það þýðir samt ekki að allar hugmyndir eða túlkanir séu jafngóðar (við getum leitt hugann að skaðlegum hugmyndum og falsfréttum). Eftir því sem börn öðlast meiri leikni í samræðunni er tilefni til þess að rökræða hugmyndir og túlkanir. Þá skipta tvö atriði meginmáli: a) Samræðan er ekki keppni, ef betri rök/hugmynd kemur fram þá græða allir eitthvað, ekki bara sá sem setur hana fram. b) Það er ekkert að því að skipta um skoðun, í því felst enginn álitshnekkir (þannig andrúmsloft elur ekki á mistakaótta).
Gagnleg rit
- Jóhann Björnsson, Eru allir öðruvísi? Fjölmenning og heimspeki.
- Jóhann Björnsson, Erum við öll jöfn: Kynjamál og heimspeki.
- Jóhann Björnsson, Ef þú óskar þess að fá hest í afmælisgjöf og færð flóðhest, hefur þá óskin ræst? … og fleiri heimspekilegar pælingar handa hverjum sem er.
- Gareth B. Matthews, Heimspeki og börn. Íslensk þýðing eftir Skúla Pálsson.
Ólafur Páll Jónsson er prófessor og Björn Rúnar Egilsson er doktorsnemi og stundakennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.