Sigga Dögg kynfræðingur og Sigurður Sigurðsson verkefnastjóri hjá Heimili og skóla/SAFT fjölluðu um það hvernig foreldrar geta rætt við unglinga um sambönd, tilfinningar, mörk og kynlíf.

Upptaka á fundinum.

Virðum mörk barna og unglinga

Viljum við kenna börnum okkar að setja mörk, er mikilvægt að við virðum sjálf þessi mörk. Tökum tillit til skoðana barna varðandi umfjöllun eða myndbirtingar af þeim á netinu. Kannanir sýna að foreldrar deila að meðaltali um 1.500 myndum af barni sínu áður en það verður fimm ára​​ og rúm 80% tveggja ára barna eiga einhvers konar stafrænan feril​​ á netinu. Mynd sem við setjum inn af barni eða unglingi í dag getur valdið vanlíðan jafnvel áratugum síðar.

Samfélagsmiðlar unglinga

Foreldrar og börn dvelja yfirleitt ekki á sömu slóðum á netinu. Fullorðna fólkið er flest á Facebook en börn eru frekar á Instagram, Snapchat og Tik tok. Tilgangur allra miðlanna er þó hinn sami: að eiga spjall við vini, deila myndum af sér og lýsa daglegri iðju sinni. Þörfin er sammannleg ― öll viljum við fá læk og viðbrögð frá ákveðnu fólki og skiptir þar fjöldinn yfirleitt minna máli en frá hverjum athyglin kemur. Unga fólkið talar um að „flexa“ og „flash-a“ sem þýðir að sýna allt frá hnykluðum vöðvum, rössum og brjóstaskorum yfir í bert hold, brjóst og kynfæri. Orðanotkunin getur verið breytileg eftir skólum og hverfum en „flash“ á frekar við að sýna nekt. Fullorðnir „flexa“ líka á sinn hátt þó myndirnar þeirra séu kannski frekar af nýjum sófa eða frá fríinu á Tenerife. Setjum okkur því ekki á háan hest og ræðum notkun samfélagsmiðla á einlægan hátt við börnin okkar.

  • Tik tok: Instagram fyrir myndbönd, flippvefur, mikill áróður, jákvæður og neikvæður
  • Snapchat: spjall við vini
  • Instagram: veggur og story – myndir af sér og lýsa daglegum iðjum sínum

Tölum saman og byrjum snemma

Samtöl um samskipti og mörk geta hafist snemma. Sex ára börn eru strax farin að gera sér grein fyrir hegðun fólks og samböndum sem þau sjá í kring um sig. Hversdagurinn býður þannig upp á ótal tækifæri til þess að spyrja og spjalla. „Fannst þér manneskjan í búðinni áðan vera dónaleg við aðra?“ er dæmi um spurningu sem getur opnað umræðu um mörk og virðingu fyrir öðrum. Seinna meir má tækla vandræðalegri umræðuefni í góðum ísbíltúr. Sjónvarpsþættir geta líka reynst góður ísbrjótur til að ræða kynferðisleg mál og má í því sambandi benda á þættina; Sex Education og Big Mouth, sem flestir unglingar kannast við.

Fylgjum þeim á leið til sjálfsuppgötvunar

Útlitsstaðlar kynjanna birtast börnum snemma í teiknimyndum og barnaefni. Síðar taka samfélagsmiðlastjörnur við að sýna og segja unglingum hvernig líkamar eru ásættanlegir. Ræða má hversu þröngur þessi rammi er og hversu mikil vinna liggur að baki slíku útliti (auk þess sem myndvinnsla á yfirleitt stóran hlut að máli). Spyrja má hvað raunverulega skiptir máli í fari fólks og færa samtalið nær jörðinni. Hvaðan fáum við eiginlega upplýsingar um hvernig við eigum að vera? Spyrja má unglinginn hvaða lýsingarorð hann notar um sjálfan sig og hvort hann haldi að aðrir sjái sig á sama hátt: „Ég hef stundum sagt að þú sért fljótfær/fyndin/klár, finnst þér það sjálfri?“. Tölum um fyrirmyndir okkar í æsku og hvort/hvernig sjálfsmyndin hefur breyst. Tengjum saman við daginn í dag og tilveru unglingsins. Gott er að hefja samtalið á því smáa til þess að vera treyst fyrir hinu stóra.

„Ég veit að það er vandræðalegt að tala um þetta …“

Börn og unglingar fá upplýsingar um ást og kynlíf úr ýmsum áttum en mikilvægt er að þau geti rætt málin við einhvern sem þau geta treyst. Fyrirmyndir um sambönd koma oft úr sjónvarpi þar sem hugmyndin um hinn eina sanna sálufélaga lifir góðu lífi. Er þetta svona í alvöru? Hvernig lætur maður vita að maður sé skotinn í einhverjum? Verum einlæg og segjum frá hvernig þetta var þegar við vorum ung, hvernig við reyndum við og hvernig við vissum að einhver væri skotinn í okkur. Ræða má kynjamun í viðhorfum, hvað það þýðir að vera drusla/karlmannlegur og hvort það sé sanngjarnt. Verum ekki fordæmandi en förum þó ekki í kringum hlutina, segjum beint út að kúgun sé ekki í lagi og að krakkar geti ekki borið ábyrgð á öðrum. Tölum líka við drengina okkar um sambönd, tilfinningar og kynlíf. Ástarsorg er oft stærsta fyrsta áfallið sem unglingsdrengir lenda í og fá bjargráð í boði. Á vefnum https://www.sjukast.is/ má finna upplýsingar og myndbönd hvað felst í heilbrigðum og óheilbrigðum samböndum.

Hvað er kynlíf

Að vera kynvera þýðir að vilja alúðlega snertingu. Kynlíf er hins vegar ekki skylda heldur val og útfærsluatriði hvort og hvernig við viljum stunda það. Algengasta kynlíf í heimi er sjálfsfróun en munum að lögmálin eru önnur þegar kynlíf er stundað með öðrum. Það er ekki kapphlaup um fullnægingu heldur lærdómsferðalag um líkama sinn og annarra. Kynlíf er til þess að hafa gaman af og óþarfi að halda að þú þurfir að vita og kunna allt. Við sjáum sjálf um okkar unað, að setja mörk og kenna öðrum á líkama okkar. Verum mannleg þegar við tölum við unglinga um kynlíf.

Handbókin „Kjaftað um kynlíf“ er gagnleg til að leiðbeina foreldrum og öðrum fullorðnum hvernig megi ræða um kynlíf í sinni víðustu mynd við börn og unglinga, all frá fæðingu.

Fleiri tenglar og gagnleg aðstoð

SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) veitir upplýsingar og ýmsa ráðgjöf um tæknimál.

1717, hjálparsími og netspjall Rauða krossins. Þar geta börn t.d. fengið aðstoð við að túlka netsamskipti.

Hafa má samband við Ábendingalínu Barnaheilla ef við verðum vör við t.d. einelti, áreitni eða annað ólöglegt á netinu, verkefnið er í samvinnu við lögreglu.