Hvaða áhrif hafði samkomubannið á fjölskylduna mína?

Pála Margrét Gunnarsdóttir og Aldís Auðbjörg Garðarsdóttir ræddu um áhrif samkomubannsins á líðan fjölskyldna.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Ástandið getur haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif

Foreldrahlutverkið getur aukið hamingju en uppeldi barna er engu að síður krefjandi og getur valdið álagi.

Heimilisaðstæður eru misjafnar og aukin samvera getur leitt til meiri ánægju hjá sumum en valdið árekstrum og kvíða hjá öðrum. Rannsóknir benda til að hamingja ungmenna hafi aukist í síðustu kreppu vegna fleiri gæðastunda með fjölskyldunni. Mun það sama gerast eftir þetta samkomubann þegar börn komast ekki í skóla og frístundir?

Hvaða lærdóm getum við dregið af þessum tímum?

Vitað er að jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs stuðlar að aukinni hamingju. Að vinna heima getur bæði verið álagsþáttur og verndandi þáttur fyrir heilsu fólks. Vinnuveitendur bera hér mikla ábyrgð og eru hvattir til þess að auka sveigjanleika og ákörðunarvald starfsfólks yfir tíma sínum. Stytting vinnuvikunnar gæti aukið hamingju fjölskyldna.

Það er margt sem má þakka fyrir og nefndu áheyrendur meðal annars; aukna samveru, ísbíltúra, heilsuna og meira rými til þess að njóta lífsins og náttúrunnar.

Mikilvægt er að ræða við börn um upplifun sína og tilfinningar og má benda á gagnlegar bækur fyrir börn á aldrinum 4-10 ára í þessu sambandi.

Við þurfum að hugsa vel um okkur á þessum krefjandi tímum og leyfa bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Hvað er eitruð jákvæðni?

 

Pála Margrét er aðjunkt við Menntavísindasvið, með meistaragráðu í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Aldís Auðbjörg er með meistaragráðu í áhættuhegðun og forvörnum og stundar nú meistaranám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.