Heimastærðfræði – Hvað er gagnlegt að gera?

Guðbjörg Pálsdóttir og Margrét S. Björnsdóttir fjölluðu um ýmsar leiðir til þess að efla talnalæsi og áhuga barna á stærðfræði með leikinn að leiðarljósi.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Leikið með tölur og spil.

Fáum fjölskylduna með í leikinn

Það er mikilvægt að börn finni að nánustu aðstandendur viti hvað þau eru að fást við og sýni áhuga á námi þeirra. Foreldrar, systkini, afi og amma geta hvert með sínum hætti hjálpað til við að efla stærðfræðiáhugann. Alls staðar í umhverfinu má finna tölur og mynstur sem gaman er að velta fyrir sér og gera að leik.

Stuðningur við heimanám

Foreldrar geta aðstoðað börn við að setja sér markmið og upplifa sigra í náminu. Þá gagnast vel að setja sig inn í viðfangsefnin til þess að geta bæði sýnt og kveikt áhuga. Greina má verkefnin og inntakið með börnunum og benda á gagnsemi í daglegu lífi. Markmiðið er ekki bara að ljúka verkefnum heldur að læra af þeim og geta sagt frá því sem við höfum lært. Leikir geta einnig verið mjög hjálplegir.

Leikið við hvern sinn fingur

Margir telja að notkun fingra við útreikning bendi til slakrar færni í stærðfræði. Þvert á móti hafa rannsóknir leitt í ljós að fingranotkun gagnist afar vel og virki svæði í heilanum sem við notum við útreikninga alveg fram á fullorðinsár.

Það má reyna ýmsa reiknilist með bæði yngri og eldri börnum með fingrunum einum saman:

  • Á hvað marga vegu geturðu talið frá einum upp í fimm með annarri hendi, koma fram áhugaverð mynstur?
  • Hvernig má vera viss um að hafa talið allar mögulegar leiðir og hvernig sannfærir þú aðra um að það hafi náðst?
  • Athugið að sumt þarf ekki að leysa um leið og ekki skal reka á eftir svörum heldur taka sinn tíma – jafnvel fram á næsta dag.

Jo Boaler prófessor við Stanford háskólann sérhæfir sig í stærðfræðimenntun og menntun fyrir kennara. Hún sýnir hér ýmsar reiknikúnstir á fingrum sér: https://www.youcubed.org/resources/count-on-me-k-12-video/

Leikur er góð námsleið fyrir allan aldur – notum spilastokkinn!

Guðbjörg sýndi möguleika spilastokksins til að þjálfa reiknifærni með leikjum sem má útfæra á ótal vegu.

Hún benti einnig á skemmtilega síðu með myndböndum Mick Minas og ungrar dóttur hans Nash, þar sem þau fást við ýmsar skemmtilegar stærðfræðiþrautir og leiki: https://www.lovemaths.me/games

Einnig má benda á greinar Guðbjargar og Margrétar hér á Bakhjarlasíðunni:

Guðbjörg Pálsdóttir er dósent í stærðfræðimenntun og Margrét Sigríður Björnsdóttir aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.