Menntakerfið á tímum COVID-19

Höfundur er Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.

Við höfum fengið dýrmæta innsýn inn í styrk og sveigjanleika íslensks menntakerfis á síðustu vikum. Skóla- og frístundastarfi í landinu var kollvarpað með litlum sem engum fyrirvara og fjarnám og „heimaskólun“ varð veruleiki fjölmargra foreldra og barna. Framhalds- og háskólanemar stunda sitt nám alfarið á rafrænan máta og leik- og grunnskólar hafa endurskipulagt daglegt starf til að tryggja velferð barna og ungmenna. Við stöndum frammi fyrir breyttri heimsmynd og gríðarmiklum áskorunum og þjóðir sem búa við öflug menntakerfi munu standa betur að vígi til að takast á við þær. COVID-19 faraldurinn sem nú geisar dregur skýrt fram hve þýðingarmikið er að efla samskiptahæfni einstaklinga, nýsköpun og hugvit, gagnrýna og siðferðilega hugsun.

Samvinna skiptir sköpum
Að baki þeirri umbyltingu innan menntakerfisins sem við höfum fylgst með undanfarnar vikur liggur kraftmikil samvinna margra. Kennarar, skólastjórnendur og annað starfsfólk skóla hefur unnið baki brotnu við að halda uppi skólastarfi og finna nýjar leiðir og lausnir. Ég vil einnig nefna frístundaleiðbeinendur sem halda utan um frístunda- og félagsstarf, þroskaþjálfa, náms- og starfsráðgjafa, uppeldis- og menntunarfræðinga og stuðningsfulltrúa sem eru mikilvægir bandamenn, talsmenn og ráðgjafar barna og ungmenna. Störf alls þessa fólks eru ómetanleg og skipta sköpum fyrir samfélagið.  Það er rík ástæða til að hafa áhyggjur af þeim sem standa höllum fæti, s.s. vegna fötlunar, fátæktar og annarra félagslegra aðstæðna. Sterkt stuðningsnet sem grípur, styður við og hvetur alla til dáða byggist á samvinnu ólíkra kerfa samfélagsins, ekki síst velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfis.

Skapandi lausnir og sveigjanleiki

Við munum geta dregið mikinn lærdóm af þeirri ótrúlegu umbreytingu sem orðið hefur á daglegu starfi allra skólastiga. Menntakerfið hefur forgangsraðað upp á nýtt og lagt fyrri áætlanir til hliðar. Það hefur verið magnað að fylgjast með öllum þeim nýju aðferðum, verkfærum og hugmyndum sem fagfólk á sviði menntunar hefur gripið til og nýtt til að styðja við virkni og velferð barna og ungmenna. Það er áríðandi að við leggjum við hlustir og heyrum raddir unga fólksins – hver er þeirra upplifun af síðustu vikum? Hver er og verður þeirra veruleiki? Hver eru þeirra forgangsmál?

Við þurfum nú að leysa öll meginverkefni samfélagsins við nýjar og óvæntar aðstæður. Nú sem aldrei fyrr þarf að efla nýsköpun og virkja hugvit til að styðja við atvinnu- og efnahagslíf og renna styrkari stoðum undir samfélagið. Það er því fagnaðarefni að í aðgerðapakka stjórnvalda vegna COVID-faraldursins er veruleg innspýting inn í rannsóknir og vísindi. Hér skipta rannsóknir á menntun og menntakerfinu miklu máli fyrir framtíð Íslands. Dýpri skilningur og skarpari sýn á þróun menntunar mun skila árangri á öllum sviðum samfélagsins.

Gagnrýnin og siðferðileg hugsun

Bent hefur verið á annars konar faraldur sem geisar um þessar mundir, en það er staðleysufaraldur (e. infodemic) sem felst í því að rangar upplýsingar um COVID-19 ferðast hraðar um en veiran sjálf, eins og kom fram í nýlegu viðtali við Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar. Falsfréttir grafa undan stoðum samfélagsins, ýta undir tortryggni og geta skaðað bæði einstaklinga og samfélög. Við þessar aðstæður erum við rækilega minnt á það grundvallarmarkmið menntunar að efla læsi, þar á meðal fjölmiðlalæsi, og einnig gagnrýna og siðferðilega hugsun barna og ungmenna. Hin gagnrýna hugsun felst í því að vega og meta sannleiksgildi og kynna sér uppruna eigin sannfæringa og mótrök þeirra. Hin siðferðilega hugsun felst í því að þroska dómgreind og ætti að móta athafnir okkar, því hún hjálpar okkur að ákvarða að hverju skuli stefnt og hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Meginatriðið hér er að eiginleg menntun snýst um hvort tveggja, skarpa hugsun og gott hjartalag.

Lifum og lærum á nýjan hátt

Sé litið um öxl yfir síðastliðnar vikur fær engum dulist sá kraftur sem býr í skólasamfélaginu, í frístundastarfinu og í velferðarkerfinu okkar. Staðfest hefur verið að menntakerfið getur aðlagast og sveigt sig á örskömmum tíma að samfélagslegri umbyltingu. Við erum sannarlega ekki búin að sjá fyrir endann á þeirri áskorun sem COVID-19 faraldurinn er. Það mun skipta sköpum að okkur takist að styrkja þá lykilhæfni sem gerir okkur kleift að takast á við flókin verkefni, sem einstaklingar og sem samfélag. Við lærum nú að lifa saman á annan hátt en áður. Menntunin sem í þessu felst er gríðarmikil, hún mun efla okkur til lengri tíma.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, 24. apríl 2020.