Lærdómurinn sem felst í því að leika og leiðast

Höfundur er Eva Harðardóttir, doktorsnemi, bakhjarl og kennari við MA.

Á hlaðvarpinu FreshEd www.freshedpodcast.com kennir ýmissa grasa um skóla- og menntamál. Ég er mikill aðdáandi hlaðvarpsins sem hefur það að markmiði að „gera flóknar hugmyndir í menntarannsóknum auðskiljanlegar“ eins og stjórnandi hlaðvarpsins, Will Brehm orðar það. Í nýjasta þætti hlaðvarpsins er rætt við Armand Doucet, kanadískan kennara sem hlotið hefur verðskuldaða athygli fyrir skapandi og spennandi kennsluaðferðir þar sem áhersla er lögð á að laða fram og byggja á hæfni og áhuga nemenda.

Hogwart skóli galdra og seiða

Sem dæmi breytti Armand skólanum sínum í Hogwart skóla, skóla galdra og seiða, í heila viku þar sem nemendur sóttu eingöngu tíma sem Harry Potter og félagar hans myndu sækja í Hogwart án þess að eitt einasta námsmarkmið úr hefðbundnu námskránni félli niður. Í viðtalinu við hann er þó ekki farið inn á Harry Potter skólann, þó áhugaverður sé, heldur fer Armand yfir þá þætti sem hann telur mikilvægasta í námi og skólahaldi á tímum COVID19. Í fyrsta lagi minnir hann okkur á að þegar við stöndum frammi fyrir alheimsfaraldri sem skapar algjört neyðar- og óvissuástand er ekki hægt að gera kröfu á kennara, nemendur eða foreldra að gera hlutina á sama hátt og áður. Falleg birtingarmynd af því hvernig gildi og viðmið geta breyst er til dæmis þegar Armand sinnir yngsta barninu sínu sem fær að njóta sín með babbli og einstaka gargi í bakgrunni viðtalsins. Ég þori að fullyrða að fyrir COVID19 hefði ekki þótt boðlegt að bjóða barni með í viðtal í virtu menntahlaðvarpi.

Maslow before Bloom

Armand lauk nýverið við skýrslu sem hann gaf út ásamt öðrum kennurum og fræðafólki sem leggur mat á þær leiðir og möguleika sem felast í fjarkennslu. Skýrslan var rituð til upplýsingar fyrir stefnumótun UNESCO og er aðgengileg hér. Þar er lögð sérstök áhersla á hugmyndina “Maslow before Bloom” í skólastarfi. Með því er átt við mikilvægi þess að tryggja grunnþarfir allra nemenda áður en farið er að hafa áhyggjur af flokkunarkerfi Bloom og stöðu nemenda í því kerfi. Í þessu samhengi ræðir Armand um það hvernig ójöfnuður eykst og verður áþreifanlegri þegar neyðarástand skapast. Skólar skipa nefnilega stórt hlutverk í lífi margra barna þegar kemur að því að skapa öruggt skjól og halda rútínu. Um þetta skrifaði ég fyrir stuttu síðan hér. Í þessu ljósi hlýtur það vera hlutverk skóla og kennara að tryggja jafnt aðgengi nemenda að námi og leita markvisst leiða til að aðstoða þá nemendur sem eiga ekki sömu möguleika til náms, til dæmis vegna aðstæðna heima fyrir.

Eitt ár á nokkrum dögum

Hann vekur líka máls á því gífurlega álagi sem kennarar og skólastjórnendur hafa upplifað og koma til með að upplifa áfram á næstu misserum. Á kennarafundi sem ég sótti sjálf í vikunni, sagði skólameistari að í eðlilegu umverfi hefðum við beðið um í það minnsta eitt ár til að undirbúa okkur undir þá kennslu og kennsluaðferðir sem við vorum krafin um að kynna okkur, koma á laggirnar og sinna á einungis nokkrum dögum. Margir kennarar stóðu vel að vígi og höfðu nú þegar yfir að búa bæði þekkingu og hæfni til að sinna fjarkennslu með ótal skapandi aðferðum. Aðrir þurftu að leggja meira á sig til þess að læra á ný forrit, nýja hæfni og aðlaga aðferðir sínar að breyttu umhverfi. Hins vegar eru langflestir kennarar að gera sitt allra besta og rúmlega það til að bregðast við.

Krísukennsla? Verjum meiri orku í að tryggja vellíðan og öryggi nemenda

Armand og félagar hans leggja á það ofuráherslu að við gleymum ekki uppeldisfræðilegri hlið kennslunnar á þessum tímum og koma þannig aftur að hugmyndinni um Maslow á undan Bloom. Þannig mætti hugsa sér að fjarkennslan sem flestir háskólar, framhaldsskólar og efri bekkir grunnskóla beita nú, ætti ekki síður að vera tæki til að fylgjast með og sinna grunnþörfum nemenda. Sýna nemendum stuðning, styrkja tengslin og huga að andlegri og félagslegri líðan. Í viðtalinu biðlar Armand til kennara og stjórnenda að eyða meiri orku í að tryggja vellíðan og öryggi nemenda en að fara í flókna og tímafreka vinnu til þess eins að geta haldið uppi hefðbundnum prófum og einkunnagjöf. Staðreyndin er sú að ástandið nú er hvorki hefðbundið né stöðugt og því mikilvægt að hugsa um nám og menntun út frá krísukennslu (e. education in emergencies) fyrst og fremst. Þá nefnir hann einnig að möguleikarnir til þess að meta árangur og getu einstaklinga eru mun fjölbreyttari utan formlegrar menntunar og bendir sem dæmi á aðferðir íþróttaþjálfara til að meta stöðu og árangur einstaklinga og íþróttaliða.

Njótum samveru – aukatíminn er gjöf

Beðinn um góð ráð til foreldra og forráðamanna segir Armand að líkt og kennarar þá þurfi foreldrar fyrst og fremst að hugsa um grunnþarfir, bæði eigin sem og barnanna sinna. Til þess að sinna þeim sem best séu samvera og samræður lykillinn, líkt og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor emeritus, minnti okkur á í góðum pistli. Hann minnir líka aftur á að flest erum við að taka að okkur mörg ný hlutverk sem við ráðum misvel við. Ekki allir foreldrar geta sinnt heimaskóla með stundaskrá, frímínútum, afþreygingu og fullgildum námsmarkmiðum. Og þeir sem afreka þetta í einhvern tíma, geta ekki sinnt því til lengdar. Þá skiptir mun meira máli að njóta samverunnar með börnunum, halda lágmarks rútínu og reglu og leggja fyrst og fremst áherslu á lestur.

Við ættum að líta á allan þann aukatíma sem faraldurinn hefur gefið okkur sem gjöf. Tækifæri til þess að gefa börnum aukið rými þar sem þau skapa sér sjálf sína eigin dagskrá enda er það hverju barni bæði þroskandi og lærdómsríkt að fá tíma til að leika sér og tíma til að leiðast.