Ræðum saman heima

Höfundur er Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor emeritus í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands.

Vinnan má bíða á meðan þú sýnir barninu þínu regnbogann,

en regnboginn bíður ekki meðan þú lýkur verkinu.

Á þessum óvenjulega tíma sem ríkir nú í samfélaginu verja flestir foreldrar og börn þeirra meiri tíma saman. Sérstakt tækifæri gefst þeim því til að treysta böndin enn frekar og styrkja og hlúa að börnunum. Hér skulum við huga að mikilvægi þess að foreldrar og börn þeirra gefi sér tíma til að ræða saman.

Í samræðum foreldra og barna augliti til auglitis þar sem hugsun barnanna er löðuð fram gerist svo margt í senn. Í samræðunni skapast nánd. Barnið finnur að foreldrið veitir því athygli og hlustar á það. Traust myndast og ríkari öryggiskennd sem er svo mikilvægur grunnur að líðan þess og þroska á mörgum sviðum.

Í samræðunni er mikilvægt að foreldrið laði fram hugsun barnsins eða ungmennisins og hlusti vel á það sem það hefur að segja. Því miður er okkur svo gjarnt að hafa orðið, segja okkar skoðun og ráðleggja og leita því ekki nægilega eftir hugsun þeirra. Við þurfum því að þjálfa okkur í því að laða fram hugsun barna og ungmenna. Það þekki ég af eigin raun.

Við getum gert það meðal annars með því að nota opnar spurningar þegar við ræðum saman. Slíkar spurningar hefjast á spurnarorðunum: Hvað … Hvernig … Hvers vegna. Sem dæmi ef verið er að lesa sögu, grein, frétt eða skoða mynd saman: Hvað gerðist í sögunni? Af hverju ætli það hafi gerst? Hvernig ætli X hafi liðið? Af hverju ætli honum/henni hafi liðið þannig? Hvernig ætli Y hafi liðið? Hvers vegna? Hvað væri hægt að gera? Af hverju væri það mikilvægt? Og svona mætti áfram halda. Opnar spurningar gefa þannig færi á margvíslegum svörum og gefa því svigrúm til að láta hugann fara víða; ekkert eitt svar er rétt.

Börnin og ungmennin fá í samræðum tækifæri til að tjá sig, spá í hlutina og orða hugsun sína og auka um leið orðaforða sinn og frásagnarhæfni. Í samræðunni getum við jafnframt ýtt undir að þau setji sig í spor annarra, sýni samlíðan með öðrum og skoði mál frá mismunandi hliðum (sbr. dæmið hér að ofan). Við getum ýtt undir að þau læri að hlusta, rökstyðji mál sitt og hugsi sjálfstætt. Og við getum ýtt undir frumkvæði þeirra og skapandi hugsun.

Þetta veganesti er svo brýnt fyrir þau út í lífið, bæði í einkalífi, á starfsvettvangi og sem virkir borgarar í lýðræðissamfélagi.

Ekki má heldur gleyma því að það er einstaklega gaman að ræða við börn og ungmenni. Þau koma okkur sífellt á óvart með áhugaverðum og skemmtilegum vangaveltum sínum.

Comments are closed.