Tökum til í svefnvenjunum!
Erlingur Jóhannsson prófessor og Rúna Sif Stefánsdóttir doktorsnemi fjölluðu um fyrirbærið svefn, hvað gerist þegar við sofum og um mikilvægi svefns fyrir líðan okkar og heilsu.
Upptöku á fundinum má finna hér.
Í svefninum á sér stað endurheimt fyrir bæði sál og líkama
Í rannsóknum Erlings, Rúnu Sifjar og fleiri rannsakenda frá Menntavísindasviði kemur í ljós að íslensk ungmenni sofa of lítið. Einnig sýna rannsóknirnar að þeir sem hreyfa sig meira eru minna í tölvum og símum – og báðir þættir hafa jákvæð áhrif á gæði svefns.
Rúna Sif er um þessar mundir að skoða tengsl svefns við minni og athygli, m.a. rýnir hún niðurstöður úr samræmdum prófum á unglingastigi.
Athyglisvert er að hreyfing ungmenna minnkar töluvert frá 15 ára aldri til 17 ára. Breytingin átti sér mestmegnis stað á virkum dögum eða skóladögum. Þetta dregur mikilvægi þess að við skoðum skólaumhverfið vel með það í huga að skapa sem oftast aðstæður og svigrúm til hreyfingar.
Annað sem Erlingur og Rúna Sif komu inn á var mikilvægi reglu, breytileiki í svefni og svefnmynstri ungmenna er mjög mikill – en lykilatriði er að halda reglu á svefninum.
Spurningar frá þátttakendum lutu að klukku og tíma
Hvaða skoðun hafa Erlingur og Rúna Sif á breytingu á klukkunni, eða seinkun á upphafi skóladags hjá unglingum? Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á veruleg jákvæð áhrif á vellíðan og námsárangur, í skólum þar sem uppphafi skóladags var seinkað. Þau eru bæði fylgjandi því að seinka klukkunni og telja það geta haft jákvæð áhrif á svefn og heilsutengda þætti.
Þátttakendur spurðu einnig um gildi morgunæfinga sem íþróttafélög skipuleggja gjarnan fyrir unglinga og ungmenni sem eru á bólakafi í íþróttum. Rúna Sif og Erlingur mæla þeim ekki endilega bót, enda þarf líkaminn endurheimt og hvíld, það tvennt eru algjör lykilatriði í árangri íþróttafólks. Eins gjalda þau varhug við íþróttaæfingum seint á kvöldin, það gefur líkamanum ekki nauðsynleg skilaboð fyrir svefninn.
Að lokum: Svefn er grunnstoð heilsu!
Vefurinn Heilsuhegðun ungra Íslendinga inniheldur allar upplýsingar um rannsóknir Erlings, Rúnu Sifjar og rannsakenda á Menntavísindasviði.