Að hvetja framhaldsskólanemann af stað eftir páskafrí: Áskoranir og leiðir fyrir foreldra

Guðrún Ragnarsdóttir, lektor og Súsanna Margrét Gestsdóttir aðjunkt ræddu um áskoranir og leiðir til að hvetja framhaldsskólanemann af stað í náminu eftir páskafrí. Rúmlega 100 þátttakendur hlýddu á erindi þeirra og sendu inn spurningar. Guðrún og Súsanna hafa safnað gögnum undanfarnar vikur sem endurspegla hvað kennarar, foreldrar og nemendur í framhaldsskólum eru að ganga í gegnum á tímum kórónaveirunnar.

Upptöku á fundinum má finna hér.

Úr einum örfyrirlestri náms- og starfsráðgjafa í Borgarholtsskóla.

Raddir foreldra, kennara og nemenda í framhaldsskólum

Það blasir við að síðustu vikur og næstu vikur verða mikil áskorun fyrir heimilin og skólana. Í gögnum Guðrúnar og Súsönnu kemur fram eftirtektarverður samhljómur milli radda kennara, foreldra sem og nemenda.

Viðmælendur þeirra nefna að skilin milli heimilis og náms/vinnu eru óljós og að aðstæður nemenda til að fá aðstoð frá foreldrum sínum eru æði misjafnar. Nemendur sækja jafningjastuðning til félaga sinna. Foreldrar hafa komið með ábendingar til skólameistara um hvað megi betur fara.

Námsumsjónarkerfin eru mörg hver framandi fyrir foreldra en Guðrún og Súsanna Margrét hvöttu foreldra til að kynna sér það sem þar er, einkum námsáætlanir, verklýsingar og námsmat. Í kringum þessar upplýsingar geta foreldrar svo rætt við unglingana um námið og námsframvinduna. Skólar hafa nálgast fjarkennsluna með ólíkum hætti og innan sama skóla getur jafnvel verið um mörg mismunandi kerfi að ræða, milli ólíkra kennara og námsgreina. Fram kom ábending frá foreldrum að líklega hefði verið betra að athuga það strax í upphafi að taka upp eitt kerfi til að einfalda nemendum lífið því oft þurftu nemendur að hitta kennarana sína á mörgum ólíkum miðlum og taka við upplýsingum víða. Guðrún og Súsanna bentu á hve gagnlegt það gæti verið að fá ungmennin sjálf í leiðsögnina, þau þekktu yfirleitt betur en foreldrarnir til þeirra umsjónarkerfa sem notuð eru í skólunum.

Nemendur sem og foreldrar eru áhyggjufullir yfir námsmati og tilhögun náms og því hve ólík nálgun getur verið bæði milli skóla og milli kennara í sama skóla.

Það eru litlu sigrarnir sem skipta máli í svona aðstæðum

Svo mælti foreldri nemenda með ADHD, en þeir nemendur hafa átt á brattann að sækja þegar rútína er lítil og óvissa mikil. Annar nemandi lýsir eirðarleysinu og ládeyðunni með orðunum: Hendur mínar eru eins þungar og blý! Nemendum varð tíðrætt um félagslegu tengslin en ungmenni á framhaldsskólaaldri eru mjög félagslega virk upp til hópa. Þeim þykir erfitt að komast ekki á íþróttaæfingarnar sínar eða aðrar tómstundir, sem eru oft stór hluti af þeirra sjálfsmynd.

Helst myndi ég vilja fá að knúsa þau!

Raddir kennara eru í miklum samhljómi við raddir foreldra og nemenda. Kennarar lýsa áhyggjum sínum af gengi nemenda sinna í námi, sem og velferð almennt. Umhyggja og söknuður eftir samskiptum við nemendur í raunaðstæðum skein í gegn í svörum þeirra. Ofan á áhyggjurnar kemur álag sem fylgir því að koma til móts við nemendur í fjarkennslu, kennarar ganga oft langt í þeim efnum, sveigja og beygja af leið og reyna að láta ringulreiðina ekki ná tökum á sér né nemendum. Kennarar sakna líka samstarfsfólksins og vinnustaðarins.

Þátttakendur á fundinum leituðu eftir hollráðum um hvernig þeir gætu borið sig að gagnvart skólunum ef börn þeirra vildu ekki þiggja aðstoð, einn benti á mikilvægi þess að stilla væntingum í hóf, ekki væri hægt að búast við því að ungmenni myndu skila 100% öllu sínu við þessar óvenjulegu aðstæður. Spurt var um áhugahvöt og leiðir til að efla hana almennt, ábendingar komu fram um að betra hefði verið að vera með eitt námsumsjónarkerfi í stað margra og fólk spurði út í leiðir til að mæta ungmennum sem væru með ADD.

Að lokum eru hér hlekkir á ýmislegt gagnlegt og fróðlegt frá námsráðgjöfum framhaldsskólanna, sem eru ávallt til staðar fyrir nemendur skólanna og foreldrar geta leitað í þeirra smiðju einnig.