Foreldrar og tvítyngd börn á tímum faraldurs

Höfundur er Sigríður Ólafsdóttir, lektor við Menntavísindasvið

Nú eru óvanalegir tímar. Leik- og grunnskólar bjóða börnum að dvelja í skólanum annað hvort hluta úr degi eða fáeina daga í viku. Þá eru börnin meira heima. Best er að börnin dvelji hjá foreldrum en ekki hjá afa og ömmu. Eldra fólk er í miklu meiri hættu en ungt fólk á því að veikjast alvarlega ef það fæ vírusinn.

Hvernig geta foreldrar og börn varið deginum sem best þannig að samveran verði bæði ánægjuleg og lærdómsrík?

Mikilvægt er að hafa ákveðið skipulag á deginum. Það bæði styttir daginn og börnin verða öruggari af því þau vita nokkurn veginn hvernig dagurinn verður.

Börn sem nota annað tungumál en íslensku heima, og íslensku í leik- eða grunnskóla, þurfa nú að fá fleiri tækifæri til að nota íslensku heima, því nú eru þau minna í skólanum. Ef íslenskan er mun minna notuð á meðan ástandið varir er hætta á að þau auki íslenskufærni sína hægar. Það getur orðið til þess að þeim muni ganga verr í skólastarfinu. Þó foreldrar og börn haldi áfram að nota móðurmálið í samskiptum eru fjölmörg tækifæri sem bjóðast til að bæta íslensku við.

Ef foreldrar kunna lítið eða ekki íslensku getur barnið kennt foreldrum sínum eða þau læra saman.

Eðlilega skiptist dagurinn upp eftir máltíðum. Þá er kjörið tækifæri að börnin taki þátt í undirbúningi, að ákveða hvað á að borða og hvernig skal matreiða. Þá geta farið fram dýrmætar samræður á milli foreldra og barna. Mikilvægt er að setja orð á matvæli, áhöld og athafnir, en foreldrar og börn geta æft sig í því að segja allt bæði á móðurmálinu og á íslensku. Ef íslensk orð vantar getur einhver fengið það hlutverk að finna orðin á netinu, t.d. bara á google translate.

En það fer þó að miklu leyti eftir aldri barna hvað hentar best.

Leikskólabörn

Eftir hverja máltíð er mikivægt að nota áfram orðin sem komu upp við matreiðsluna. Það er upplagt í leik, að herma eftir matreiðslunni með leikföngum. Síðan má teikna og föndra. Umfram allt er mikilvægt að tala saman á meðan á leiknum stendur, nota íslensku orðin og móðurmálið.

Ung börn læra einmitt best í gegnum leik og samskipti sem eiga sér stað oft yfir daginn. Samræður við barnið þurfa að fjalla um það sem barnið sjálft sýnir athygli. Sá fullorðni þarf að koma til barnsins og ræða um það sem barnið er að fást við. Það gefur bestan árangur. Og þá gefast aftur tækifæri til að setja íslensk orð á hluti og athafnir.

Í gegnum samræður læra börnin einmitt best og mest. Það á líka við þegar lesnar eru bækur. Það er frábært að lesa bækur á móðurmálinu og líka á íslensku. Sá fullorðni les og barnið hlustar og, það sem er allra best, þau ræða saman um það sem lesið er. Oft heldur barnið sjálft áfram að lesa og notar myndirnar til að styðjast við. Það er mjög gagnlegt og sá fullorðni kemur inn í með því að halda áfram samtalinu og síðan lestrinum. Þegar lesnar eru bækur á íslensku má alveg tala saman bæði á móðurmálinu og íslensku og eins þegar lesnar eru bækur á móðurmálinu má koma íslenskunni inn.

Daglegur leikur inni og úti, föndur með alls kyns efni sem sótt er hingað og þangað, göngur í náttúrunni, allt eru þetta uppspretta samtala sem auka málþroska barna. Mikilvægt er að koma að íslenskum orðum hér og þar, auk móðurmálsins, nota tækifærin sem gefast til að efla íslenskufærnina.

Grunnskólabörn

Eldri börn geta haft heilmikið að segja um það hvað er eldað á hverjum degi. Þá getur verið ánægjulegt að skoða uppskriftir sem er að finna á netinu, íslenskar og á móðurmálinu. Þar er ríkulegur orðaforði, sem nær yfir matvæli, eldhúsáhöld og matreiðsluaðferðir. Mikilvægt er að nota ný orð sem koma fyrir áfram til að þau festist í minni. Samræður við fullorðna um það hvað á að vera í matinn, umræður á meðan eldað er og þegar er borðað eru afskaplega árangursríkar fyrir málþroska barna. Börnin hafa jafnvel ánægju af því að útbúa matreiðslubók sem skrifuð er á íslensku og móðurmálinu.

Umræður verða einnig innihaldsríkar ef þær tengjast lestri bóka, á móðurmálinu og á íslensku. Mikilvægt er að barnið lesi bækur á báðum málum, en lestur er ein besta leiðin til að auka færni í tungumálum. Í bókum er að finna margs konar orð sem sjaldan eða aldrei eru notuð þegar við tölum saman. Slík orð gegna mjög stóru hlutverki í námi því þau koma gjarnan fyrir þegar nemendur lesa og fjalla um efni hinna ýmu námsgreina. Börn sem eru búin að læra að lesa geta lesið bækur að eigin vali sjálf, en mikilvægt er að þau segi foreldrum sínum frá bókunum og þau ræði þær saman. Þá verður lærdómurinn miklu meiri. Svo er einnig ánægjulegt að lesa bækur saman, verja tíma í sameiningu með bók, lesa og spjalla.

Börn á grunnskólaaldri þurfa þó gjarnan að bæta upp þann litla tíma sem þau verja í skólanum. Kennarar setja þeim fyrir heimaverkefni. Árangursríkast er að börnin vinni verkefnin ekki bara ein, heldur að foreldrar setji sig vel inn í það sem börnin fást við og aðstoði eftir þörfum. Þar skapast enn frekari uppspretta samræðna. Hægt er að ræða um viðfangsefnið og tengja við reynslu barnanna eða áhugasvið.

Foreldrar þekkja þó börnin sín best. Sum börn eru bara alsæl við að vinna verkefnin sín en önnur síður. Mikilvægt er að skapa ekki of mikla spennu á heimilinu. Því er mikilvægt að gera sér grein fyrir öllum þeim möguleikum sem skapast í daglegu fjölskyldulífi sem geta verið uppspretta mikils lærdóms. Ef börnin fá næg tækifæri til ánægjulegra samskipta við foreldra í bland við frjálsan leiks, mun þeim líða betur og fjölskyldunni í heild. Þá eru miklu meiri líkur á að börnin hafi eirð í sér og dug til að takast á við námsgreinarnar.

Að ræða fréttir dagsins

Börn þurfa líka að ræða við foreldra sína um ástandið núna, en það fer eftir aldri barnsins á hvaða hátt það er best. Nú eru allar fréttir stútfullar af umræðum um Covid-19 og daglega eru upplýsingafundir með lykilfólkinu okkar hér á landi. Með eldri börnum er gott að horfa saman fjölskyldan og kynna sér hvernig atvikin þróast og viðbrögð yfirvalda. Gullið tækifæri er fyrir tvítyngdar fjölskyldur að fylgjast með á Íslandi og líka í upprunalandinu, bera saman hvernig staðið er að málum í löndunum. Þá þarf að ræða málin innan fjölskyldunnar, og samræður eru svo gagnlegar. Örugglega koma upp mörg orð, bæði íslensk og á móðurmálinu, sem eru ný fyrir barninu og jafnvel foreldrunum, og þau þarf að taka fyrir, skoða merkingu þeirra, finna hvernig þau eru notuð t.d. víða á netinu. Síðan þarf að leitast við að nota orðin sjálf í umræðum.