Hollráð til foreldra um þeirra líðan og geðheilsu
Þær Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, aðjunkt og sálfræðingur og Helga Theódóra Jónasdóttir, sálfræðingur hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og stundakennari við Menntavísindasvið ræddu málin á örðum fræðslufundi fundaraðarinnar. Yfirskrift fundarins var Hollráð til foreldra um þeirra líðan og geðheilsu.
Upptöku á fundinum má finna hér.
Ábendingar og tenglar frá þátttakendum
Spurt var um lista yfir gagnleg kennsluöpp eftir kennslustigum, fyrir þá foreldra sem eru ekki kennarar. Í því samhengi var bent á síðuna Hagnýtir tenglar hér á vef bakhjarla en þar bætast við tenglar nánast daglega. Einn þáttakenda segist nota flipgrid, m.a. til að láta barnið lesa fyrir ömmu og afa, barnið tekur þá upp videó sem amma og afi geta séð. Hér er tölvumiðstöð fatlaðra með smá lista um öpp.
Beðið var um dæmi þar sem hvatningakerfi fyrir börn hafa ekki verið að virka sem skildi og ráð í svoleiðis aðstæðum. Þær Helga og Gyða bentu á að mikilvægt er að:
- Hegðunin sem óskað er af barninu sé vel skilgreind og við hæfi þannig að barnið viti til hvers er ætlast af því.
- Fylgja kerfinu vel eftir þannig að barnið upplifi ekki að fá stundum og stundum ekki ták/hvatningu og ruglast þannig í ríminu.
- Hafa verðlaunin sem barnið getur „keypt“ fyrir táknin nógu spennandi og hjálpa barninu að koma fram með raunhæfar hugmyndir um hvað hægt sé að „kaupa“.
- Setja raunhæf markmið, passa að setja þau ekki of hátt í upphafi þannig að það verði ekki of erfitt fyrir barnið að sýna æskilega hegðun. Þegar barnið nær þeirri færni sem lagt er upp með má hækka markið.
Með kveðju frá þeim Gyðu og Helgu
Gyða og Helga hvöttu fólk til að mæta sér sjálfu af mildi. Ef einhver finnur fyrir kvíða og nær ekki að vinna á kvíðanum með þeim hollráðum sem komu fram á fræðslufundinum þá hvetja þær viðkomandi að hafa samband við fagaðila. Sálfræðingar á heilsugæslustöðvunum eru með símatíma, mest út af COVID-kvíða en líka kvíða sem er afleiðing af ástandinu. Sálfræðingar á stofum eru bæði að taka fólk til sín í viðtöl og sinna fjarviðtölum og loks hjálparsími Rauða krossins 1717. Mikilvægt er að deila líðan sinni með fagaðila, ættingja eða vini.
Vert er að skoða síðuna Viðja – uppeldisfærni en þar er m.a. að finna hlaðvarpið Uppeldisspjallið. Þáttur sjö fjallar t.d. um tilfinningar í uppeldinu – viðmælandi þáttarins er Erla Margrét Hermannsdóttir, sálfræðingur.
Fjöldi annarra hlaðvarpsþátta um uppeldi og ýmislegt því tengt, „Uppeldismolar“, myndbönd og ýmislegt hagnýtt efni er að finna á síðunni. Viðja – uppeldisfærni er einnig á Facebook. Á Facebook-síðunni er að finna ýmsar hugmyndir um dagskipulag fyrir börn, dæmi um fjölbreyttar athafnir sem börnin geta gert sjálf og með foreldrum sínum.