Á tímum COVID-19 þarf sem aldrei fyrr að huga að verndandi þáttum í lífi ungmenna

Höfundar eru Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor emeritus

Veruleiki ungs fólks og um leið daglegt líf þess á tímum COVID-19 hefur gjörbreyst. Aukinn handþvottur og sprittun handa er aðeins hluti þess sem breyttist í kjölfar faraldursins. Við bættist lítil sem engin skólasókn, engar íþróttaæfingar, samkomubann og sóttkví með tilheyrandi takmörkunum á því að hitta vini og stórfjölskyldu. Sumar fjölskyldur glíma auk þess við smit og aðrar takast á við óvissu og kvíða í tengslum við þá stöðu sem upp er komin í samfélaginu.

Enn er lítið vitað um viðhorf barna og ungmenna til þessa vágestar og þeirra breytinga sem skapast hafa vegna COVID-19. Nærtækast er að leita eftir röddum unga fólksins sjálfs. Í þeim tilgangi ræddum við óformlega við nokkur ungmenni innan tvítugs sem fyrsta skref í því efni.

Hjá þeim kom fram að óttinn við að smitast af veirunni sjálf væri minni en óttinn við að foreldrar þeirra eða ömmur og afar fengju veiruna. Þau hefðu heyrt að veiran hefði alvarlegri afleiðingar fyrir eldra fólk en þá sem yngri eru. Fullorðna fólkið í kringum þau væri margt stressað og stemningin í samfélaginu skrýtin. Þau sjálf væru heldur ekki laus við hugsunina um að þau eða vinir þeirra smituðust. Þá væri leiðinlegt að geta ekki hitt vini sína og verið áhyggjulaus í samskiptum augliti til auglitis.

Hugsun ungmennanna beindist jafnframt að námi þeirra; hvort hægt yrði að ljúka vorönninni á réttum tíma og hvort þau gætu útskrifast eins og til stóð. Einnig nefndu þau að þetta ástand hefði gert það að verkum að þau gætu ekki einbeitt sér nægilega vel og væru orðin langt á eftir í náminu. Þá hefðu sum þeirra misst aukavinnu sína með skóla og óttuðust að geta ekki séð fyrir sér það sem eftir væri vetrar.

COVID-19 faraldurinn hefur þannig orðið viss áhættuþáttur í lífi ungmenna. Rannsóknir innan þroskasálfræði, þar sem skoðað er hvað ýtir undir farsæld fólks og hvað dregur úr henni, gefa til kynna að ungir sem aldnir sem glíma við erfiðleika í lífi sínu séu líklegri til að koma verr undan fargi, t.d. farsóttarinnar sem nú geisar en þeir sem búa við stuðning og góðar aðstæður. Því er aðkallandi að hlúa að verndandi þáttum í lífi fólks samhliða slíkum áföllum. Með ungmenni í huga, drögum við hér fram nokkra slíka þætti. Þar beinum við athyglinni ekki síst að þeim sem viðkvæmust eru fyrir mótbyr og hvernig draga megi úr líkum á að slíkt áhættutímabil verði til þess að þau fari út af sporinu í lífinu.

Hverjir eru þá þessir verndandi þættir sem hlúa þarf sérstaklega að á tímum COVID-19? Þetta eru þættir sem tengjast:

(1) Ungmennunum sjálfum: Mikilvægt er að huga að vellíðan þeirra við slíkar aðstæður, ýta undir jákvæðni og bjartsýni, heilbrigðan lífsstíl og hvetja þau til þess að halda áfram að fást við uppbyggjandi verkefni og viðfangsefni sem þau hafa gleði af.

(2) Heimilinu, skólanum og tómstundunum: Mikilvægt er að ungmennið fái hlýju, stuðning og hvatningu á þessum vettvangi. Einnig að dregin sé upp raunhæf mynd af möguleikum til að fást við ástandið og leiðir fundnar. Í skólastarfi hefur til að mynda reynt á hugmyndaauðgi við að breyta kennsluaðferðum og námsmati. Á heimilum hafa foreldrar þurft að finna lausnir við að sameina atvinnu, nám heima með börnum sínum og það að eiga gleðistundir saman án þess að sækja afþreyingu út fyrir heimilið. Lyklarnir að farsælli lausn á framangreindum áskorunum eru samræða og samráð við þá sem í hlut eiga. Til dæmis að foreldrar leiti markvisst eftir sjónarmiðum barna sinna ásamt því að tefla sjónarmiðum sínum fram og lausna sé leitað saman. Í samræðu þeirra er þannig hlúð að gagnkvæmu trausti og samkennd auk hæfni barnanna til að setja sig í spor annarra og skoða mál frá mismunandi hliðum sem er svo mikilvæg hæfni í lífinu.

(3) Samfélaginu og kerfum þess: Á tímum sem þessum skiptir lykilmáli að samfélagið sé tilbúið að tryggja hag heimilanna með samfellu launagreiðslna sem fara fram samhliða greiðslugetu vinnuveitenda og tækifærum þeirra til að tryggja atvinnu. Þá þarf að finna leiðir til að veita ungmennum nauðsynlega aðstoð og meðferð – ungmennum sem glíma við vanlíðan eða eru í áhættuhópi sem tengist brottfalli úr skóla og atvinnumissi eða hafa nú þegar lent í vanda vegna áhættuhegðunar. Sveigjanleiki og snemmbær inngrip heilbrigðis-, félags- og menntakerfanna við slíkar aðstæður geta ráðið úrslitum um hversu vel tekst til við að hlúa að farsæld ungmenna í samtíð og til framtíðar.

Reynslan er oft lærdómsrík. Ungmennin sem við ræddum við veltu fyrir sér stöðunni í kjölfar veirufaraldursins bæði með nærumhverfið og fjærumhverfið í huga. Þau töldu upplýsingagjöf á Íslandi í tengslum við faraldurinn hafa verið til fyrirmyndar og að fólk leggi sig fram um að hjálpast að og finna lausnir. Fyrir þetta voru þau þakklát. Á sama tíma veltu þau fyrir sér erfiðri stöðu fólks í löndum sem glíma við stöðuga sjúkdómafaraldra, hungursneyð, skort á heilbrigðisþjónustu og stríðsvá.

Með það í huga, að mörg bjargráð eru til staðar í samfélagi okkar og mikill vilji til að takast á við áskoranir samtímans, teljum við brýnt að nýttur sé samtakamáttur allra aldurshópa í þessu verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Rafræn samskipti eru þar mikilvægt verkfæri til að viðhalda daglegu starfi og kalla fram raddir sem flestra. Einnig þarf að tryggja að stuðningsúrræði kerfanna nái til allra hópa og ekki verði útundan sem dæmi sá hópur ungmenna sem á undir högg að sækja. Ýmis úrræði svo sem Hjálparsíminn 1717 og netspjall eru þess vegna mikilvægur vettvangur sem ungt fólk getur nýtt sér. Jafnframt gegnir starfsfólk skóla- og tómstundastarfs veigamiklu hlutverki við þessar aðstæður og er því mikilvægt að stjórnendur þeirra stofnana tryggi þeim stuðning í starfi. Grasrótarstarf foreldra og heimila er einnig nauðsynlegt sem aldrei fyrr og samvinna á þeim vettvangi nýtist öllum börnum, ekki síst þeim sem búa við bágar aðstæður. Þar geta foreldrar skiptst á góðum ráðum enda mikið álag á þeim þegar samræma þarf atvinnu- og einkalíf í auknum mæli. Félagasamtök og sjálfboðaliðastarf létta samfélaginu síðan verkin með öflugu framlagi á tímum sem þessum.

Með slíkum samtakamætti, styrk og þrautseigju tryggjum við að allir borgarar gangi reistir frá borði þegar birta tekur.