Alþjóðlegur dagur barnabókarinnar

Höfundur er Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Í dag, 2. apríl, er alþjóðlegur dagur barnabókarinnar sem haldinn er ár hvert á fæðingardegi ævintýraskáldsins H. C. Andersen. Þá er gott tilefni til að minna á mikilvægi barnabókarinnar í lífi barna og ungmenna. Af þessu tilefni hefur allt frá árinu 2011 verið frumflutt ný íslensk smásaga í öllum grunnskólum landsins en einnig á Rás 1 svo allir landsmenn fái að heyra söguna. Það er IBBY á Íslandi sem stendur fyrir þessum viðburði. Í ár er það sagan Haugurinn eftir Gunnar Theodór Eggertsson sem við fáum að heyra. Auk þess fylgir aðgangur að skemmtilegu efni sem tengist sögunni. Sjá nánar: https://ibby.is/2020/03/31/haugurinn-a-degi-barnabokarinnar-2020/

Ég hvet foreldra og börn í heimavist til að hlusta saman og minni á að það má hlusta hvenær sem er á vef Ríkisútvarpsins.

Á þessum degi er líka kunngjört hvaða bækur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Að þessu sinni fer athöfnin fram á vef ráðsins kl. 10.00 að íslenskum tíma. Þar má svo í framhaldinu sjá hvað bækur er um að ræða. Sjá nánar: www.norden.org

Gildi barnabóka

Barnabækur hafa margvíslegt gildi í uppeldi og menntun barna. Þær hafa fyrst og fremst skemmtigildi, en einnig menningarlegt, listrænt, menntunar- og uppeldislegt gildi. Þessi gildi barnabókarinnar fléttast saman og styrkja hvert annað. Umfram allt er barnabókin þó sjálfstæður heimur sem lýtur eigin lögmálum.

Barnabækur eru skrifaðar til að skemmta börnum, víkka sjóndeildarhring þeirra og vekja til umhugsunar og sumar til að fræða börn um eitt og annað. Að lesa eða heyra góða sögu er eitt af því allra besta sem okkur býðst í lífinu. Börn eiga ekki að þurfa að vera heppin til að uppgötva það.

Heimur barnabóka er fjölbreyttur og í honum má ferðast óhindrað um lönd og álfur og þar getur allt gerst. Í bókum birtist börnum bæði veruleiki sem þau þekkja og veruleiki sem þau þekkja ekki og eiga ekki kost á að kynnast af eigin raun. Þannig á það líka að vera. Börnum finnst gaman að bókum þar sem veröldin er kunnugleg, þar sem eru börn sem líkjast þeim sjálfum og búa við svipaðar aðstæður og fást við sömu viðfangsefni. En það er ekki síður gaman að skoða bækur og heyra um börn sem búa annars staðar í heiminum, við allt aðrar aðstæður.

Það er vel þekkt að sumar barnabækur verða sígildar og jafnvel heimsþekktar. Margar persónur barnabóka verða þjóðþekktar og sumar heimsþekktar. Dæmi um hið síðarnefnda eru Lísa í Undralandi, Lína langsokkur, Gosi, Bangsimon og Harry Potter. Þjóðþekktar persónur íslenskra barnabókmennta eru fjölmargar og má þar nefna tvíburana Jón Odd og Jón Bjarna, tröllkonuna Flumbru og hina kotrosknu Fíusól og fyrri kynslóðir barna þekktu vel óþekktarangann hann Gutta og Hjalta litla. Af íslenskum þjóðsagnapersónum og þjóðsagnaverum sem allir þekkja má nefna Gilitrutt og Búkollu, að ekki sé nú minnst á Grýlu og jólasveinana.

Þá lifa sumar myndir í barnabókum kynslóð eftir kynslóð. Mér er nær að halda að allir Íslendingar þekki mynd Halldórs Péturssonar af Grýlu sem fyrst kom fyrir sjónir almennings árið 1946 í Vísnabókinni. Þessi Grýlumynd Halldórs er orðin hluti af íslenskum myndlistararfi og flestar myndir af Grýlu í barnabókum og öðrum miðlum taka á einhvern hátt mið af henni.

Þannig lifa atburðir og persónur í barnabókmenntum í vitund heilla þjóða, eiga hlut í þjóðarvitundinni og tengja fólk saman. Það er öllum einstaklingum mikilvægt að eiga sinn hlut í þessari þjóðarvitund og það er liður í menntun hans. Eitt af því sem gerir þjóð að þjóð er sameiginleg menningarreynsla. Barnabókmenntir eru hluti af þeim reynslusjóði og börn mega því ekki fara á mis við þær í uppvextinum.

Barnabækur geta veitt börnum margvíslegar fyrirmyndir. Persónur í barnabókum takast á við fjölbreytta reynslu og tilfinningar, sýna jákvæða og stundum neikvæða hegðun. Slíkt gefur góð tækifæri til umræðna við börn og er vel til þess fallið að auka skilning þeirra á eigin tilfinningum og því hvernig hegðun er viðurkennd í samfélaginu.

Fjölbreytt viðfangsefni barnabóka er vel til þess fallið auka þekkingu barna á heiminum og veita þeim margvíslega sýn á veröldina. Vangaveltur og umræður um efni og persónur barnabóka gefa samtölum innihald, þroska málskilning og hæfileikann til að hugsa og eiga málleg samskipti.

Foreldrar skipta máli

Læsi blómstrar þar sem börn hafa góðan aðgang að skemmtilegum bókum sem þau langar að heyra eða lesa, þar sem þau geta valið sjálf úr fjölda bóka og fá nægan tíma til að njóta þeirra. Fátt er jafn áhrifaríkt og rétt bók á réttum tíma fyrir barnið.

Árangur í lestrarnámi eins og öllu öðru er drifinn áfram af áhuga. Rannsóknir á mismunandi hvatningarátökum í lestri sýna að ef það tekst að kveikja á innri áhugahvötinni er björninn oftast unninn. Og það þarf að byrja snemma að laða börn að bókum, þjálfa hlustun, einbeitingu og lestrarþol.

Það hefur lengi verið ljóst og er sífellt að staðfestast betur og betur í rannsóknum hversu mikilvægt heimilið er og hversu uppeldið sem þar fer fram hefur afgerandi áhrif á þroskamöguleika barna og velgengni þeirra í öllu námi, ekki bara lestrarnámi.

Hugtakið fjölskyldulæsi er notað í víðu samhengi um allar athafnir daglegs lífs sem fram fara á heimilinu eða á vegum fjölskyldunnar og tengjast læsi með einum eða öðrum hætti. Í fjölskyldulæsi felst meðal annars lestur bóka og hvers kyns texta á heimilum en einnig ritun, til dæmis að skrifa minnismiða, að skrifa á tölvu, að fylgja uppskriftum og leiðbeiningum. Það á auk þess við um sögur sem heimilisfólk segir hvert öðru hvort sem það er í samræðum, með lestri eða ritun. Sjá nánar um fjölskyldulæsi: https://lesvefurinn.hi.is/node/207

Rannsóknir á börnum sem læra snemma að lesa sýna að það eru fyrst og fremst börn sem mikið er lesið fyrir, sem mikið er talað við og sem alast upp í mál- og lestrarhvetjandi umhverfi á heimilum sínum, þar sem þau sjá foreldra sína lesa og þar sem áhuga barnanna á bókstöfum og ritun er svarað með jákvæðum og hvetjandi hætti. Sjá nánar: https://lesvefurinn.hi.is/node/212 og https://lesvefurinn.hi.is/node/150

Slökum á og njótum

Það er mikið álag á mörgum heimilum þessar vikurnar og þá er gott að setjast niður, anda djúpt og lesa saman skemmtilega bók, jafnvel sem framhaldssögu. Reynið að skapa ró og gera stundina ánægjulega. Hér má líka minna á bók sem kom út fyrir síðustu jól og heitir Ró. Þar er börnum og foreldrum hjálpað til að finna ró og innri frið í erli dagsins. Bókin er eftir þær Evu Rún Þorgeirsdóttur og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur.

Hér koma að lokum nokkrar tillögur að nýlegum bókum sem fjölskyldan getur lesið saman eða börnin og unglingarnir lesið sjálf. Sumar bækurnar eru til sem hljóðbækur:

Skrímsli í vanda eftir Áslaugu Jónsdóttur, Rakel Helmsdal og Kalle Güttler (og aðrar bækur um litla og stóra skrímslið).

Stelpan sem sigldi kafbát niður í kjallara eftir Guðna Líndal Benediktsson og RyokoTamura (og tvær aðrar um sömu persónur).

Sigurfljóð í grænum hvelli eftir Sigrúnu Eldjárn (og tvær aðrar um sömu persónu).

Stórhættulega stafrófið eftir Ævar Þór Benediktsson og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur.

Egill spámaður eftir Lani Yamamoto.

Nærbuxnaverksmiðjan og Nærbuxnanjósnararnir eftir Arndísi Þórarinsdóttur.

Langelstur að eilífu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur (og tvær aðrar um sömu persónur).

Fíasól gefst aldrei upp eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur (og fleiri bækur um sömu persónu).

Randalín, Mundi og leyndarmálið eftir Þórdísi Gísladóttur (og fleiri bækur um sömu persónur).

Vigdís. Bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygering.

Bernskubrek Ævars vísindamanns: Óvænt endalok eftir Ævar Þór Benediktsson (og fleiri bækur í þessari lestrarseríu).

Orri óstöðvandi og Orri óstöðvandi – Hefnd Glæponanna eftir Bjarna Fritzson.

Silfurlykillinn og Kopareggið eftir Sigrúnu Eldjárn.

Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason.

Nornasaga. Hrekkjavakan eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur.

Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins eftir Snæbjörn Arngrímsson.

Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur.

Ungfrú fótbolti eftir Brynhildi Þórarinsdóttur.

Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur (sjá einnig Koparborgin).

Ljónið og Nornin eftir Hildi Knútsdóttur.

Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels og Fjallaverksmiðja Íslands eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur.