Að laga daginn að leikskólabarninu á tímum veirunnar

Höfundar eru bakhjarlarnir Kristín Dýrfjörð, dósent í leikskólafræðum við Háskólann á Akureyri og Dr. Guðrún Alda Harðardóttir, pedagogista í leikskólanum Aðalþingi.

Nú eru mörg börn annan hvern dag eða minna en það í leikskólum. Mörg munu á næstunni verða alfarið heima með foreldrum í sóttkví og jafnvel einangrun. Fyrir foreldra er að mörgu að hyggja. Það getur alveg tekið á að vera innandyra með litlum börnum langa daga. Hinsvegar er líka hægt að gera ýmislegt sem einfaldar lífið fyrir einhverja. Fyrir það fyrsta skiptir máli að halda í daglegt skipulag og rútínu, að kaflaskipta deginum þannig að börn átti sig á hvað tekur við eftir til dæmis morgunmat, hádegismat og svo framvegis. Slíkt getur létt álagi af bæði börnum og foreldrum. Í leikskólum er þetta stundum sett upp með myndrænu skipulagi.

Börn geta haft áhyggjur af því óþekkta og snöggum og óvæntum breytingum í lífi sínu, sem breyting á skólahaldi sannarlega er. Það er hlutverk fullorðinna að draga úr kvíða barna eins og kostur er.

Í flestum leikskólum er hver dagur í föstum skorðum; börn mæta, leika með tiltekinn efnivið, oft er boðið upp á rólega leiki, síðan er gjarnan morgunmatur, samvera, verkefnavinna, frjáls leikur og svo framvegis. Foreldrar þurfa líka að huga að því að dagarnir heima séu með sínu sniði. Hér að neðan munum við setja fram nokkrar hugmyndir til að styðjast við.

Hvað geta foreldrar gert?

Fyrir foreldra getur það verið góð leið að búa til svipaðan ramma utan um dag barnanna heima líkt og er í leikskólum. Ekki síst þegar rútínan, að fara daglega í leikskólann, er ekki til staðar. Það var athyglisvert að heyra viðtöl við börn eftir verkfall Eflingar, þau tjáðu sig mörg um að dagurinn hafi snúist um spjaldtölvur, síma og sjónvarp. Það er í lagi í einhvern tíma að auka skjátíma en það þarf að huga að því að börn fái fjölbreyttari viðfangsefni – sem í felast áskoranir.

Það er mikilvægt að benda á, sem þekkt er, að þegar foreldrar eru undir álagi hættir þeim til að láta rútínur og skipulag lönd og leið. Þess vegna þurfa foreldrar að vera meðvitaðir og vakandi yfir mikivægi þess að halda rútínum eða skapa þær. Dæmi um það er að þarf að huga að því að börnin fari að hátta á sama tíma og venjulega og á fætur á svipuðum tíma. Tímana þar á milli þarf líka að hugsa út frá ákveðnum áföngum í deginum.

Með það í huga að börn eru vön að leika sér getur ein leið verið að skapa barninu sérstakar aðstæður til leikja. Það getur verið hugmynd að tjalda í stofunni, til dæmis að nota teppi og lök til þess og jafnvel að útbúa síðdegishressinguna eða hádegismatinn inn í tjaldinu. Börn kunna að meta skapandi hugmyndir og lausnir í leikinn.

Leikur er aðferð barna til að vinna úr hræðslu. Slíkan leik á ekki að stoppa, en heldur ekki hvetja til hans. Hinsvegar ef börnin sýna áhuga til að vita meira um þessa framandi veiru, sem hefur breytt lífi þeirra, þá er t.d. hægt að finna fjölda mynda af veirunni á Internetinu. Myndir sem geta verið áhugaverðar til að vinna meira með; teikna veiruna, mála veiruna, gera veiruna í leir (leik, leikdeig).

Að lokum minnum við á mikilvægi þess að fara daglega út með börnunum. Gönguferðir um nágrennið og mögulega skoða náttúruna þar sem það er hægt.

Hvað geta ömmur og afar gert?

Ömmur og afar geta haft daglega rabbfundi með barnabörnunum, þau geta nýtt til þess messenger/fésbók og þau geta tengt sig við Zoom eða Skype. Slíkar samverustundir geta dregið úr einangrun beggja hópa og tryggt að tengslum sé við haldið. Amma og afi geta sagt börnunum sögur, beðið þau um að segja sér sögur, þau geta verið þátttakendur í leikjum barna eða bara viðstödd þegar börn leika sér. Margar ömmur og afar hafa drjúga reynslu af því að vera í tengslum við barnabörnin í gegn um netið. Það er æskilegt ef hægt er að ákveða sama tíma dags fyrir slík stefnumót, jafnvel tvisvar á dag. Við minnum hinsvegar á að huga þarf að úthaldi beggja. Svona fundir geta verið mikilvægur hluti þess að búa til reglu í daginn.

Hvað geta leikskólar gert?

Líkt og á öðrum skólastigum eru fleiri og fleiri leikskólakennarar komnir í einhverskonar fjarvinnu vegna aldurs, lokana og undirliggjandi sjúkdóma. Vissulega er vandamál hvað leikskólastigið er verst útbúna skólastigið hvað varðar tæki og tól eins og tölvur. Það er til dæmis mjög óvenjulegt að leikskólakennarar hafi aðgang að tölvum og/eða spjaldtölvum hver fyrir sig frá sínum rekstraraðila eins og er á öðrum skólastigum. Þessi skortur gerir leikskólakennurum og starfsfólki leikskóla verulega erfitt fyrir við fjarvinnu, sem virkilega er þörf á í dag. Hinsvegar er sjálfsagt hægt að leysa sumt af þessu með því að sveitarfélög borgi starfsfólki þóknun fyrir not á þeirra eigin tækjum.

Leikskólakennarar geta til dæmis skipulagt leikhópa barna á neti (streymi) – með því rofið félagslega einangrun foreldra, sem er sérstaklega mikilvægt þegar foreldrar eru einir með börnin. Börnin geta þá leikið og rabbað við önnur börn í sömu aðstæðum í rauntíma. Margir foreldrar hafa möguleika til að tengja síma eða tölvur við stóra skjái og/eða sjónvörp sem eykur leikupplifun barnanna.

Leikskólakennarar geta haft samband við foreldra, rætt um hvað barnið er að fást við og um líðan þess og svo framvegis. Í frásögnum fólks sem hefur verið í einangrun vegna COVID-19 hefur komið fram hve miklu máli það hefur skipt þau, að fá reglulegt símtal frá fulltrúum heilbrigðiskerfisins.

Greinin birtist fyrst í Stundinni.

Hér að neðan eru nokkrar slóðir sem ættu að geta nýst foreldrum á næstu vikum

Slóðir:

Koffortið: Hvað er hægt að gera með börnum heima á tímum COVID https://annaelisaisl.wordpress.com/2020/03/15/daegradvol-og-covid-19-leikskolaborn/?fbclid=IwAR1Q1OYF8WgfR48w99lR8Bb0czW7Vcv_cdWmnBWpqZ64pq7nXBSCIOJ0eHc

Koffortið: Föst heima með börnin 2. hluti
https://annaelisaisl.wordpress.com/author/annaelisah/hluti https://annaelisaisl.wordpress.com/author/annaelisah/

Verkefnabanki https://paxel123.com

Börn og tónlist https://www.bornogtonlist.net/user/Birte/
Leikur að bókum https://leikuradbokum.net/user/Birte/

Tölvuleikir og öpp https://tolvuleikir698342289.wordpress.com

Síða UNICEF um fjarnámstæki fyrir börn: https://www.facebook.com/groups/351497351677940/?epa=SEARCH_BOX

Myndband um leik barna PLAYed:

Leikdeig https://www.laupur.is/leikdeig-thaegileg-uppskrift-2/