„Hvenær hætta læknirinn og lögreglumaðurinn í sjónvarpinu að segja okkur að coronavírusinn sé að vinna?“

Höfundur er Eva Harðardóttir, bakhjarl, kennari við MA, doktorsnemi og fyrrum starfsmaður UNICEF í Malaví.

Er skynsamlegt að senda börn í skóla eða ekki, á tímum COVID? Við þessari spurningu er í raun ekkert einfalt svar. Á grunni reynslu minnar af því að skipuleggja menntun í landi þar sem ríkti neyðarástand af völdum náttúruhamfara, stöðu minnar sem kennara sem er óendanlega annt um nemendur og skólastarf og síðast en ekki síst út frá sjónarhóli mínum sem móðir tveggja barna á leik- og grunnskólaaldri, langar mig að fjalla um nokkra punkta.

Ég sé að minnsta kosti þrjú mikilvæg sjónarmið, sem eru ekki endilega að fullu samrýmanleg en skipta öll máli. Það er nauðsynlegt að hafa þau öll í huga áður  en við dæmum afstöðu og ákvarðanatöku foreldra, skólastjórnenda eða yfirvalda til skólastarfs á þessum óvenjulegu tímum.

Skóli er haldreipi

Í hvers konar neyðarástandi, þar sem lítið fer fyrir hversdagslegri rútínu og andrúmsloftið einkennist af heilsufarslegri, efnhagslegri, félagslegri og tilfinningalegri óvissu eru grunnstoðir samfélagsins, menntun og skólar þar með taldir, mikilvægustu einingarnar. Í starfi mínu fyrir UNICEF í Malaví upplifði ég svart á hvítu hvers virði yfirvegað og reglulegt skólastarf er fyrir líf og tilveru barna sem upplifa lítið annað en ringulreið öllu jafna. Skólinn getur oft á tíðum verið haldreipið og „normalíseringin“ sem börn þarfnast allra helst á óvissutímum. Hér skiptir umhverfi og rútína meira máli en inntak eða yfirferð námsefnis. Þegar neyðarástand ríkir og fólk er m.a. svipt atvinnuöryggi og tekjum að verulegu leyti, aukast líkur á heimilisofbeldi, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Foreldrar og heimili landsins eru afar misjafnlega í stakk búin til þess að takast á við þær aðstæður og þurfa því alla þá kerfislægu aðstoð sem í boði er, til að gera sitt besta.

Aðstæður nemenda eru misjafnar

Minna alvarlegt, en engu að síður praktískt og raunverulegt dæmi um misjafnar aðstæður og möguleika barna og ungmenna til náms, fann ég í spjalli mínu við nemendur í Menntaskólanum á Akureyri í vikunni. Mörgum fannst fjarnámið sem þau sinna núna æðislegt og jafnvel betra en staðnámið (!) á meðan aðrir lýstu aðstæðum sínum á heimilinu sem flóknum og jafnvel erfiðum. Mörg systkini, lítið næði til að læra og jafnvel ekki mikill skilningur heiman frá til þess að forgangsraða náminu fram yfir annað. Sumir nemendur óttuðust að ná ekki að útskrifast í vor og þar af leiðandi að fá ekki inngöngu í háskóla næsta haust. Dóttir mín Hera Fönn hefur farið tvo daga í skólann á síðastliðnum tveimur vikum og finnst skólinn jafnvel betri nú en áður. Hún upplifir meiri fókus, skemmtilegri verkefni og áþreifanlega umhyggju. Í kreppunni sem Finnar upplifðu á 10. áratug síðustu aldar var lögð sérstök áhersla á menntun barna og ungmenna. Skólahald breyttist í kjölfar breyttra aðstæðna í samfélaginu og nýjar áherslur litu dagsins ljós. Þau skref sem voru tekin í menntakerfinu á þessum erfiðu tímum lögðu grunn að sterkri stöðu finnsks menntakerfis síðar meir. Skólahald á Íslandi hefur gjörbreyst á undanförnum vikum, ýmis konar nýsköpun hefur litið dagsins ljós þrátt fyrir erfiðar og óstöðugar aðstæður. Íslenskir kennarar eru án nokkurs vafa að leggja grunn að því að íslenskt samfélag mun eflast og styrkjast í kjölfar þeirra óhugnanlegu tíma sem við upplifum nú.

Hvernig tryggjum við að okkar viðkvæmasta fólki sé sinnt?

Í neyðarástandi er mikilvægast af öllu að vernda viðkvæma hópa og tryggja að framlínufólk geti sinnt störfum sínum. Vinkona mín er hjúkrunarfræðingur og þarf að sinna veiku fólki, fólki í áhættuhópum og fólki sem hefur sýkst af veirunni. Hún á líka börn, meira að segja mörg börn sem eru öll á skólaaldri. Hún á mann í framlínustarfi sem er líka mikilvægur í baráttunni við COVID. Hvernig tryggjum við að okkar viðkæmasta fólki sé sinnt? Hér skiptir skólahald gríðarlegu máli en á sama tíma þarf að brýna fyrir fólki að taka ákvarðanir út frá bestu vitund, þekkingu og tilfinningu. Sú ákvörðun getur falist í því að halda barni frá skóla á grunni heilsufarslegra ástæðna eða aðstæðna í fjölskyldu og nærumhverfi. Sú ákvörðun gæti verið að senda barn í skóla því þar gætu einfaldlega verið hagstæðari aðstæður fyrir barnið en heima fyrir. Það skiptir hins vegar máli að unnið sé að því að veita þá grunnþjónustu sem menntun og skólahald er, eins og frekast er unnt. Að loka skólum alfarið er líka áhætta fyrir börn og ungmenni, sem og þá hópa sem eru viðkvæmastir í samfélaginu núna og þurfa allra helst á þjónustu að halda. Margir skólar hafa þurft að loka í kjölfar óviðráðanlegra aðstæðna, enginn skólastjóri, leyfi ég mér að fullyrða, lokar hins vegar sínum skóla nema tilneyddur.

„Hvenær hætta læknirinn og lögreglumaðurinn í sjónvarpinu að segja okkur að coronavírusinn sé að vinna“? spurði bráðum fimm ára gamall Alex okkur foreldrana í gær. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að hann skynjaði með jafn raunsönnum hætti þær aðstæður sem eru í samfélaginu.

Að þessu sögðu tel ég mikilvægast að við sýnum hverju öðru skilning, virðingu og umhyggju. Sýnum því skilning hvort, og af hvaða ástæðum við kjósum að senda börnin okkar í skóla eða ekki á þessum tímum. Tölum frekar saman, bjóðum fram aðstoð og sýnum sveigjanleika og skilning á grunni ólíkra aðstæðna fólks.